22/12/2024

Fjárframlög til Arnkötludals skert 2007

Samkvæmt frumvarpi sem Geir H. Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram á Alþingi verður fjárframlögum til vegagerðar um Arnkötludal breytt á milli áranna 2007 og 2008. Í stað 400 milljóna sem áttu að fara til verksins á árinu 2007 verður 200 milljónum varið til verksins á því ári og lækkar framlagið þannig um 200 milljónir. Jafnframt hækkar framlagið árið 2008 samkvæmt frumvarpinu úr 400 milljónum í 600 milljónir. Þannig ættu verklok árið 2008 að geta staðist, svo framarlega að fjárveitingum árið 2008 verði ekki frestað aftur eftir kosningar. 

Strandamenn hljóta nú að leggja þunga áherslu á að verkefnið verði boðið út í heild sinni og tafarlaust í upphafi árs 2007, þannig að verklok liggi ljós fyrir áður en gengið er til Alþingiskosninga.

Í sama frumvarpi er gert ráð fyrir tilfærslum á framlögum frá árinu 2007 til ársins 2008 til fleiri verkefna, s.s. Sundabrautar og Norðausturvegar.