05/11/2024

Fjallvega- og skemmtihlaupið Þrístrendingur

Fjallvegahlaupið Þrístrendingur verður háð í fyrsta sinn laugardaginn 19. júní nk. og hefst kl. 11:00. Hlaupið verður rúmlega 40 kílómetra um þrjár sýslur, þrjá fjallvegi og þrjá firði, en hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan liggur leiðin um Steinadalsheiði norður í Kollafjörð, þá yfir Bitruháls að Gröf í Bitru og loks um Krossárdal aftur suður að Kleifum. Þetta er í fyrsta skipti sem þessir heiðarvegir eru hlaupnir allir í lotu og því um frumhlaup að ræða. Meira verður lagt upp úr að halda hópinn (eða hópana) og hlaupa sér til skemmtunar en að fara eins hratt og fætur toga. Öllum er velkomið að taka þátt á eigin ábyrgð.

Nánari upplýsingar má fá á www.fjallvegahlaup.is, leiðarlýsingu er á þessari bloggsíðu eða á Facebook þar sem hlaupið er skráður viðburður. Aðstandendur hlaupsins og hugmyndasmiðir, Dofri Hermannsson frá Kleifum og Stefán Gíslason frá Gröf reikna fastlega með að hlaupið Þrístrendingur verði í framtíðinni reglulegur viðburður og miðað við umfjöllun og áhuga á því virðist viðburðurinn á barm i heimsfrægðar.