Á vef Náttúrustofu Vestfjarða kemur fram að fjallafinka (Fringilla montifringilla) sást á Hólmavík í lok október síðastliðinn. Fuglinn sást af og til í viku og líklegt að um nokkra fugla hafi verið að ræða. Fjallafinka er á stærð við steindepil, með rauðgula bringu og hálsi en dekkri á höfði og herðum. Fuglinn hefur sést víða um land og er algengasti heimsóknatíminn á haustin. Fjallafinkan hefur einnig orpið af og til í öllum landshlutum, en hefðbundið búsvæði hennar eru barrskógar í Evrópu og Asíu. Meðfylgjandi mynd tók Björk Ingvarsdóttir en fuglinn flaug á rúðu og vankaðist, en náði sér aftur.