30/10/2024

Fiskvinnslan Drangur í brennidepli á fimmta súpufundinum

Á súpufundi Þróunarsetursins á Hólmavík á morgun fimmtudag verður Fiskvinnslan
Drangur ehf. á Drangsnesi í brennidepli en Óskar Torfason framkvæmdastjóri
Drangs mun kynna starfsemi fyrirtækisins. Þetta verður fimmti súpufundurinn í
fundarröðinni í vetur þar sem fyrirtæki og stofnanir kynna starfsemi sína fyrir
íbúum Stranda. Mjög góð þátttaka hefur verið á öllum fundunum og góður rómur
gerður af þeim. Fundirnir eru haldnir alla fimmtudaga í hádeginu frá kl. 12:00 –
13:00 og eldhúsið á Café Riis reiðir fram dýrindissúpur af öllum gerðum. Stefnt
er að stórri atvinnu- og menningarmálasýningu í Félagsheimilinu á Hólmavík með
þátttöku sem allra flestra fyrirtækja á Ströndum á vordögum. Forsvarsmenn
fyrirtækja á Ströndum er bent á að hafa samband við skipuleggjendur ef áhugi er
að vera með kynningu í vetur. Allir eru hjartanlega velkomnir á fundina.