22/11/2024

Fermingarbörn fyrr og nú

Á morgun, hvítasunnudaginn 31. maí, fermast sjö börn í Hólmavíkurkirkju, en það eru þau Arnór Jónsson, Benedikt Almar Bjarkason, Darri Hrannar Björnsson, Dagrún Kristinsdóttir, Emil Sigurbjörnsson, Gunnhildur Thelma Rósmundsdóttir og Jakob Ingi Sverrisson og hefst athöfnin kl. 14:00. Annar hópur fermingarbarna hefur verið hér á Ströndum síðustu daga, en fimm úr hópi 19 barna sem fermdust árið 1944 í Staðarkirkju, hjá sr. Ingólfi Ástmarssyni, komu saman í Staðarkirkju og héldu upp á 65 ára fermingarafmælið á afmælisdaginn, fimmtudaginn 28. maí.

Með í för var Kristín Sigurðardóttir móðir einnar fermingarstúlkunnar, Sæunnar Andrésdóttur. Þessi hópur hefur verið Staðarkirkju afar tryggur, tvívegis áður fagnað fermingarafmæli þar og gaf  kirkjunni m.a. flaggstöng í tilefni af fimmtíu ára afmælinu.

Á meðfylgjandi mynd eru: Ingimundur Guðmundsson, Guðbjörg Gunnarsdóttir, Steinunn Guðbrandsdóttir, Sigríður Óladóttir, Sæunn Andrésdóttir, Kristín Sigurðardóttir og Þóra Kristinsdóttir.

 

65 ára fermingarbörn – ljósm. frá sr. Sigríði Óladóttur.