22/12/2024

Ferðatorg í endaðan mars

Svokallað Ferðatorg þar sem innlendir ferðaþjónar kynna það sem þeirra svæði hefur upp á að bjóða verður haldið 28.-30. mars næstkomandi í Fífunni í Kópavogi. Markaðsstofa Vestfjarða hefur tekið að sér að skipuleggja þátttöku Ferðamálasamtaka Vestfjarða á sýningunni. Ferðatorgið er haldið í samvinnu við sýningarnar Matur 2008 og Golf á Íslandi 2008 sem verða á sama tíma í Fífunni. Gera má ráð fyrir talsverðum fjölda gesta og er markmið sýnenda að sýningin gefi góða mynd af ferðamöguleikum á Íslandi næsta sumar.

Jón Páll Hreinsson hjá Markaðsstofu Vestfjarða segist gera ráð fyrir að þátttaka verði með hefðbundnum hætti. Markaðsstofan sjái um að útbúa bás Ferðamálasamtaka Vestfjarða og þar verði ferðaþjónustan á Vestfjörðum kynnt í máli og myndum. Bæklingar frá ferðaþjónustuaðilum munu liggja frammi og fulltrúum þeirra ferðaþjóna sem hafa áhuga á að vera á básnum og kynna sig og ferðaþjónustu á Vestfjörðum gefst kostur á því í samráði við Markaðsstofuna. Þeir sem hafa tekið þátt í sýningum í gegnum tíðina eru hvattir til að hafa samband og miðla af reynslu sinni.

Ef einstök fyrirtæki vilja vera með sérstakan bás á sýningunni, getur Jón Páll einnig aðstoðað við skipulagningu á því, t.d. varðandi staðsetningu. Upplýsingar um verð og fyrirkomulag á sérstökum básum er hægt að beina til Katrínar hjá Íslandsmótum í 534 7010 eða katrin@islandsmot.is. Allar nánari upplýsingar um sýninguna er að finna á www.matur.is.