22/11/2024

Ferðaþjónustusýning í Fífunni

Í dag og á morgun stendur yfir stórsýning í Fífunni í Kópavogi og eru Vestfirðingar og Strandamenn mættir þangað til að kynna ferðaþjónustu á Vestfjarðakjálkanum. Þarna eru þrjár sýningar samankomnar undir einu þaki, Sumarið 2007, Golf á Íslandi 2007 og Ferðasýningin 2007, og er sýningin opin frá 11-18 laugardag og sunnudag. Markaðsstofa Vestfjarða hefur umsjón með þátttöku ferðaþjóna og allir sem áhuga höfðu gátu skráð sig hjá honum og mætt til að kynna sitt fyrirtæki. Fulltrúi frá Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík verður á Vestfjarðabásnum og uppfræðir áhugasama um Strandir og ferðaþjónustu þar. Aðgangseyrir að sýningunni er kr. 1.000.-

Bæklingar skoðaðir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra setti sýninguna í gær. Í ræðu sinni nefndi hún Galdrasýningu á Ströndum – www.galdrasyning.is – sérstaklega sem dæmi um sérlega vel heppnaða menningartengda ferðaþjónustu.

Gylfi Ólafsson framkvæmdastjóri Vesturferða á Ísafirði og Ólafur Sveinn frá Tálknafirði kampakátir með nýjan bækling Vesturferða sem er nýkominn úr prentun – www.vesturferdir.is. Vesturferðir selja m.a. ferðir í Grímsey með Ásbirni Magnússyni á Sundhana.

ferdathjonusta/580-fifan5.jpg

Sævar Pálsson formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða var að sjálfsögðu mættur á sýninguna. Eins og Strandamenn vita er Sævar fæddur og uppalinn í Djúpavík, en nú á hann og rekur Hótel Flókalund – www.flokalundur.is – með konu sinni og öðrum hjónum.  

ferdathjonusta/580-fifan4.jpg

Heimir Hansson er forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvarinnar á Ísafirði sem er landshlutamiðstöð fyrir alla Vestfirði og heldur utan um bæklingadreifingu innan Vestfjarða og utan, auk þess sem hún sér um að safna og miðla grunnupplýsingum um alla vestfirska ferðaþjóna, atburði og fleira. Hér er Heimir ásamt Hauki Vagnssyni athafnamanni í Bolungarvík – www.vaxon.is – að skoða einhvern af nýprentuðu vestfirsku bæklingunum sem gerðir hafa verið fyrir sumarið.

ferdathjonusta/580-fifan2.jpg

Stórar myndir og lógó Vestfjarða setja svip á básinn. Ef grannt er skoðað sést að Ásbjörn Magnússon er úti í Grímsey með fugl í höndum á einni kynningarmyndinni.

Jón Páll Hreinsson forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða hefur stjórnað undirbúningi fyrir hönd Vestfirðinga. Á sýningunni verður opnaður nýr vefur Markaðsstofunnar – www.westfjords.is – en þar verða upplýsingar um alla ferðaþjónustu á Vestfjörðum og markaðssetning á henni.