22/12/2024

Ferðalag á þemaviku

Hópurinn fjallhress á húsþaki Kotbýli kuklaransSkemmtilegri þemaviku hjá börnunum í Grunnskólanum á Hólmavík er að ljúka en þessa vikuna hafa krakkarnir staðið fyrir mörgum skemmtilegum viðburðum meðal annars rekið útvarpsstöðina, Hólmavík FM 100,1. Í dag verður svo uppskeruhátíð frá kl. 12:00 – 14:00 þar sem starfrækt verður kaffihús auk þess sem hverskyns sýningar verða í gangi. Allir eru hvattir til að líta við í skólanum í dag. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is slóst í för með hópnum Umhverfis Hólmavík í gær.

Krakkarnir í hópnum hafa heimsótt vinnustaði á Hólmavík þessa vikuna og í gær var byrjað á að heimsækja Kaupfélag Steingrímsfjarðar. Þaðan var stefnan tekin á Galdrasýningu á Ströndum á Hólmavík, þar sem þau kynntu sér starfsemina sem á sér stað þar. Svo tók við eftirminnileg bátsferð með Ingvari Péturssyni í hádeginu um Steingrímsfjörð áður en þau drifu sig upp í rútu norður í Bjarnarfjörð að kynna sér uppbyggingu galdrasafnsins í Bjarnarfirði, Kotbýli kuklarans á Klúku.

.
Hópurinn á þaki Kotbýli kuklarans eftir að hafa kynnt sér bústaði íslendinga fyrr á öldum.

.

Jakob hleypur tryllingslega niður í fjöru að skima eftir ísbirni.

.

Arnór bíður bara rólegur eftir því að eitthvað gerist. Hann átti ekkert frekar von á því að rekast á ísbjörn. Ekki frekar en krókódíl.

.

Þorbjörg, Sara og Björk tylla sér á rekavið að Strandamannasið og bíða þess sem kann að koma upp á með stóiskri ró.