22/12/2024

Félagshyggja í stað einkavæðingar

Aðsend grein: Jón Bjarnason
Í Fréttablaðinu sl. laugardag fjallar Hafliði Helgason um einkavæðingu almannaþjónustunnar í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Látið er að því liggja að breið sátt hafi verið um þær aðgerðir í samfélaginu. Um sölu bankanna segir blaðið: „Fyrir utan Vinstri græna var tiltölulega mikil sátt um það, að fjármálakerfinu væri betur komið í höndum einkaaðila. Sú ráðstöfun hefur reynst happadrjúg og skapað mikil verðmæti“.

Kannski er það tilviljun að mynd af Finni Ingólfssyni fyrrverandi varaformanni Framsóknarflokksins og ráðherra er til hliðar á síðunni við leiðarann. En Finnur er einn af leiðtogum S-hópsins, forkólfa Framsóknarflokksins sem fengu Búnaðarbankann í sinn hlut.

Hið rétta er að mikil sátt var milli stjórnarflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks  um að skipta bönkunum á milli sín.  Sala bankanna færði  einstökum gæðingum þessara flokka „mikil verðmæti“á silfurfati.
Þjóðin var hinsvegar ekki spurð. Það er rétt hjá Fréttablaðinu, að Vinstrihreyfingin – grænt framboð lagðist gegn þessari sölu, vildi hinsvegar sterkan Þjóðbanka. Og kæmi til sölu á einstökum bönkum yrði það gert í dreifðri eignaraðild og strangar skorður settar við  krosseignatengslum fjármálafyrirtækja og atvinnulífs. Og er það nú ekki einmitt einkavæðing bankanna sem á sinn þátt í afsögn Halldórs Ásgrímssonar og kom í veg fyrir að Finnur Ingólfsson gæti tekið stöðu hans hjá Framsóknarflokknum?

Einkavæðing Símans var glapræði

Áfram heldur Fréttablaðið í misvísandi fullyrðingu sínum: „Aftur þegar kom að sölu Símans voru flokkadrættir nokkuð svipaðir og við sölu bankanna. Mikill meirihluti vildi selja Símann“.

Það er alveg rétt að þingmenn Vinstri grænna lögðust einarðlega gegn sölu Símans. Enda er það ein vitlausasta einkavæðing ríkisstjórnarinnar til þessa. En meirihlutinn á Alþingi vildi selja.

Ef leiðarahöfundur er hinsvegar að vísa til vilja samfélagsins þá var hann býsna ljós. Sala Símans var afar umdeild svo vægt sé til orða tekið. Skoðanakannanir sýndu ítrekað að mikill meirihluti landsmanna var andvígur sölunni. Í könnun  sem Gallup gerði í mars 2003 vildu 61 % svarenda að Síminn yrði áfram í opinberri eigu og yfir 70% íbúa landsbyggðarinnar vildu að svo væri áfram  Könnun Félagsvísindastofnunar  frá í febrúar 2005 sýndi að yfir 70% aðspurðra voru andvígir sölu á grunnfjarskiptakerfi Símans. Þjóðarpúls Gallup í mars 2005 sýndi að afgerandi meirihluti landsmanna  var andvígur sölu Símans og 76% lögðust gegn  sölu grunnnetsins.

Í september 2005, nokkrum vikum eftir að salan hafði farið fram og öll loforðin birt um ráðstöfun andvirðisins sýndi Gallupkönnun að 40% landsmanna voru óánægð með söluna en 39% ánægð. Þessarar kannanir sýna svo ekki er um villst mikla andstöðu meðal þjóðarinnar við einkavæðingu og sölu á þeirri grunnþjónustu sem Síminn hefur veitt. Og nú þegar landsmenn upplifa dýrari og verri þjónustu Símans á mörgum sviðum og lokun starfstöðva víða um land á ég fullt eins von  á  að meirihluti þjóðarinnar vildi áfram að Síminn væri í opinberri eigu.

Þjóðin hefur fengið sig fullsadda á einkavæðingunni

Markaðsvæðing  vatnsins var knúin í gegnum þingið, sömuleiðis einkavæðing á Rarik og einkavæðing á flugvöllum landsins. Einkavæðing Íbúðalánasjóðs stendur fyrir dyrum. Með samstilltu átaki stjórnarandstöðunnar tókst að slá einkavæðingu  Ríkisútvarpsins á frest. Ef að líkum lætur mun þar ekki verða fyrirstaða í Framsókn. En víst er að  þingmenn Vinstri grænna  munu verja  Ríkisútvarpið af öllu afli og ég er þess fullviss að meirihluti landsmanna styður okkur í þeim slag. Þjóðin hefur fengið upp í kok af einkavæðingu grunnþjónustunnar og hvernig ríkisstjórnarflokkarnir úthluta dýrustu samfélagseignum okkar  til flokksgæðinga sinna.  

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi