Fasteignamat hækkar um áramótin um 12% á Ströndum og á þessi hækkun við um matsverð íbúðarhúsa og íbúðarlóða, atvinnuhúsa og atvinnuhúsalóða, sumarhúsa og sumarhúsalóða, bújarða ásamt íbúðarhúsum og útihúsum og einnig á matsverð hlunninda. Undantekning frá þessari reglu er að fasteignamat á atvinnuhúsnæði og atvinnuhúsalóðum hækkar ekkert í Árneshreppi, Kaldrananeshreppi og Strandabyggð. Hækkunin er samkvæmt ákvörðun Yfirfasteignamatsnefndar og hefur áhrif á fasteignagjöld sem hækka í takt við þetta þó að skattprósentan sé óbreytt hjá sveitarfélögunum. Þetta getur því þýtt auknar álögur á eignafólk og meiri tekjur sveitarfélaga.