Fádæma fallegt veður var á sumardaginn fyrsta á Ströndum, en sá dagur er fyrsti dagur Hörpu sem var einn af sumarmánuðunum sex samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl, en dagurinn var einnig kallaður Yngismeyjadagur fyrr á tímum. Farfuglarnir eru að tínast til landsins þessa dagana, við Steingrímsfjörð hafa síðustu daga sést þúfutittlingar og steindepill, fyrstu maríuerlurnar eru mættar og jaðrakan og á Tungugrafarvogunum var tjaldurinn búinn að verpa þremur eggjum í hreiður sitt fyrir sumardaginn fyrsta. Á myndinni hér að ofan er gulönd. Myndirnar tók Jón Jónsson.