22/11/2024

Fagmennska í sauðfjárrækt á Ströndum

Á liðnum vikum hafa Strandabændur verið að gera upp skýrsluhaldið fyrir nýliðið framleiðsluár í fjárræktinni. Þar geta flestir þeirra glaðst yfir góðum árangri, afurðir eru með besta móti og kjötgæði mikil.  Forsendur þessa góða árangurs eru m.a. virk þátttaka í kynbótastarfi fjárræktarfélaganna, alúð við umhirðu og aðbúnað fjárins, gjöful sumarlönd og ekki síst brennandi áhugi og metnaður til að gera alltaf betur og betur.

Sauðfjárræktarfélag Kirkjubólshrepps er eitt þeirra félaga þar sem allir félagar hafa skilað haustuppgjöri og um það uppgjör birtist á dögunum eftirfarandi texti á fjarvis.is (sauðfjárræktarvef Bændasamtakanna):

"Þegar er lokið uppgjöri fyrir örfá fjárræktarfélög og eins og alltaf er Sf. Kirkjubólshrepps í þeirra hópi. Árangurinn hjá bændunum þar er eins og áður frábær. Hjá veturgömlu ánum fá þeir að jafnaði rúmlega lamb til skila að hausti og 16,7 kg af dilkakjöti eftir hvern gemling. Fullorðnu ærnar skila að jafnaði 1,8 lambi til nytja að hausti og er reiknað kjötmagn þeirra að jafnaði 32,2 kg. Nefna má einnig að þarna eru aðeins innan við 1,5% ánna algeldar. Gæði dilkakjötsins eru einnig frábær því að aðeins herslumuninn vantar á að meðaltal fyrir gerð sláturlambanna nái 10 og fituflokkur er að meðaltali 7,14 þó að fallþungi lambanna sé 17,4 kg að jafnaði. Ástæða er til að nefna að mikil líflambasala er frá mörgum búanna sem má ætla að hafi neikvæð áhrif á þessar meðaltalstölur úr kjötmatinu. Þessi frábæri árangur ætti að vera fjárbændum um allt land verðugt viðfangsefni að keppa að því að ná í sinni fjárrækt á allra næstu árum."