22/11/2024

Erill hjá lögreglunni á Vestfjörðum

Í vikunni sem var að líða var talsverður erill hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Skemmtanahald var með hefðbundnum hætti um hátíðarnar og þurfti lögregla að hafa talsverð afskipti af fólki vegna ölvunar, pústra og ágreinings. Þrjú umferðaróhöpp urðu í umdæminu en ekki slys á fólki, minniháttar umferðaróhapp á Ísafirði, ekið á ljósastaur á Óshlíð þar sem talsverðar skemmdir urðu á bifreið og staur og loks varð minniháttar óhapp á Hólmavík þann 27. desember þar sem bakkað var á bifreið.

Á jóladagsmorgun var tilkynnt um eld í vélbátnum Valbirni ÍS 307, þar sem báturinn lá í Ísafjarðarhöfn. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir eld í stýrishúsi bátsins og eftir að gluggi brotnaði í stýrishúsinu náðu þeir að slökkva eldinn með handslökkvitækjum, skömmu áður en slökkviliðið á Ísafirði kom á vettvang.  Einhverjar skemmdir urðu vegna elds og reyks og er málið í rannsókn hjá lögreglu.

Á aðfangadag var lögregla og sjúkralið kallað til Bíldudals vegna slys í heimahúsi. Þar hafi lítið barn dottið niður stiga milli hæða og fengið slæmt höfuðhögg milli kl. 17 og 18. Veðrið á aðfangadag var afleitt fyrir vestan, mikil ofankoma og skafrenningur og vegurinn frá Patreksfirði til Bíldudals kolófær. Þurfti því að kalla út moksturstæki frá Vegagerðinni til að fylgja lögreglu og sjúkrabíl á vettvang og milli kl. 21 og 22 var komið aftur til Patreksfjarðar, þar sem barnið var lagt inn til skoðunar.