30/10/2024

Enn verða óhöpp í Hrútafirði

Helgin fór fremur illa af stað fyrir suma sem leið áttu fyrir botni Hrútafjarðar. Í gærkvöldi fór fólksbíll út af skammt fyrir sunnan Brú og laust eftir hádegið í dag varð árekstur við brúna yfir Síká. Jeppabifreið var stöðvuð við austari enda brúarinnar til að liðka fyrir umferð. Þá kom fólksbíll á eftir honum sem náði ekki að stoppa í tæka tíð og hafnaði aftan á jeppanum. Áreksturinn var nokkuð harður. Engin slys urðu á fólki en fólksbíllinn telst ónýtur og var fluttur burtu með krana. Umferðin er orðin nokkuð þung þegar þetta er skrifað og allrar aðgátar er þörf.

Ljósm. Sveinn Karlsson