22/12/2024

Enn hægt að skrá lið í spurningakeppni

Nú er skráningu í Spurningakeppni Strandamanna að ljúka, en fyrsta keppniskvöldið verður í félagsheimilinu á Hólmavík sunnudaginn 11. febrúar kl. 20:00. Skráningarfrestur rennur út næsta föstudag, 2. febrúar. Að sögn Arnars S. Jónssonar er enn pláss fyrir lið í keppnina: „Það er enn pláss fyrir áhugasöm lið. Við stefnum að því að vera með tólf lið í keppninni eins og í fyrra, en nú eru sjö búin að skrá sig þannig að menn ættu bara að kýla á þetta strax.“ Arnar vill skora á lið utan Hólmavíkur að skrá sig í keppnina: „Ég hef grun um að tími Drangsnesinga sé kominn og mig langar að skora á þá að safna í lið; helst tvö. Það er kominn tími fyrir önnur svæði á Ströndum að gera alvöru atlögu að einokun Hólmvískra fyrirtækja á titlinum. Það munaði reyndar litlu hjá Bitrungum sem komust alla leið í úrslit árið 2004.“

Hægt er að skrá sig í spurningakeppnina með því að senda erindi þess efnis í netfangið saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is. Keppt verður í Félagsheimilinu á Hólmavík sunnudagskvöldin 11. og 25. febrúar og 11. og 25. mars.

Sigurvegarar í keppninni frá upphafi eru eftirfarandi:
2003 – Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík
2004 – Strandagaldur
2005 – Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík
2006 – Hólmadrangur