Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur fengið leyfi til að staðsetja VHF endurvarpa fyrir talstöðvar á toppi Tröllakirkju (1.001 m.y.s.), vestur af Holtavörðuheiði. Um síðustu helgi var farið á bílum með undirstöðuna undir endurvarpann og henni komið fyrir á toppi Tröllakirkju. Færið var það gott að tveir bílar náðu alla leið á toppinn. Var þessi hluti verksins unnin af félögum úr Flugbjörgunarsveit V.-Húnavatnssýslu á Laugarbakka og Björgunarsveitinni Káraborg á Hvammstanga og Borðeyri og voru meðfylgjandi myndir teknar við það tækifæri.
Fyrr í vetur voru gerðar prófanir með færanlegum VHF talstöðvaendurvarpa og komu þær það vel út að ákveðið var að fá leyfi til að staðsetja endurvarpa á toppi Tröllakirkju til frambúðar. Þá var einnig byrjað á að flytja upp á fjallið forsteyptar einingar til að halda niðri grindinni sem endurvarpinn stendur á og komu að því verki vélsleðaflokkar frá Björgunarfélaginu Blöndu á Blönduósi, Björgunarsveitin Brák í Borgarnesi, Flugbjörgunarsveit V.-Húnavatnssýslu á Laugarbakka og Björgunarsveitin Káraborg á Hvammstanga og Borðeyri.
Eins og Strandamenn vita er Tröllakirkja er tígulegt fjall, nyrsti hluti Snjófjalla. Hún er hæsta fjall sem nær inn í Strandasýslu og er þar með hæsta fjall Vestfjarða, heilum þremur metrum hærri en tindurinn Kaldbakur vestur á fjörðum sem oft er nefndur í þessu samhengi. Frá Tröllakirkju er gríðarlega víðsýnt.
Ljósm. – Gunnar Örn Jakobsson