23/12/2024

Eldur í íbúðarhúsi á Kolbeinsá

Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar kviknaði í íbúðarhúsi  þeirra Hannesar Hilmarssonar og Guðbjargar Jónsdóttur á Kolbeinsá í Hrútafirði eftir hádegi í gær. Eldsupptök báru að með þeim hætti að feitispottur sem var á eldavélinni ofhitnaði, með þeim afleiðingum að það kviknaði í feitinni. Eldurinn barst í viftuna og síðan hafði hann læst sig í innréttinguna þegar náðist að slökkva. Aðeins hársbreidd var frá því að hann næði að læsa sig í loftið sem er léttbyggt. Ef það hefði gerst þá hefði trúlega orðið stórbruni.


Snör handtök björguðu húsinu

Þegar eldurinn kom upp voru þær tengdamæðgur Rósa Jónsdóttir og Guðbjörg nýbúnar að ganga frá eftir hádegismatinn. Bakstur stóð yfir í eldhúsinu, augnablik þurfti að skreppa frá en þá var búið að kveikja undir smjörpotti sem ofhitnaði með þessum afleiðingum. Guðbjörg var stödd í húsinu færst eldhúsinu með tvö lítil börn þegar hún varð eldsins vör. Eldhúsið var þá orðið fullt af reyk og erfitt að komast að til að slökkva. Eldurinn var orðinn það mikill að eldvarnateppi sem Guðbjörg notaði fyrst dugði ekki og greip hún þá til handslökkvitækis sem dugði til að ráða niðurlögum eldsins.

Skemmdir af völdum elds, reyks og sóts

„Þetta var töluvert sjokk," sagði Guðbjörg, „sérstaklega vegna barnanna sem voru stödd inni þegar þetta gerðist, en mesta mildi var að engum varð meint af." Aspurð sagðist Guðbjörg ekki getað hugsað þá hugsun til enda hvernig farið hefði ef handslökkvitækið hefði ekki dugaðar skemmdir eru í húsinu af völdum elds, reyks og sóts.

Slökkvilið frá Borðeyri fór á staðinn en þá var búið að gera allt sem gera þurfti.  Að sögn slökkviliðsmanna hefði getað farið miklu verr. Guðbjörg virðist hafa gert allt hárrétt þegar hún varð eldsins vör, dreif börnin út og réðist svo að eldinum og var engu líkara en að hún hefði verið nýkomin af æfingu í svona uppákomum. Alla getur hent að gleyma potti á eldavél og er því miður algeng orsök bruna í heimahúsum um land allt. Þarna kom berlega í ljós hversu mikils virði er að hafa handslökkvitæki í lagi og kunna með þau að fara.

Ljósm. Sveinn Karlsson