22/12/2024

Djúpavíkurdagar um helgina

Nú um helgina verða Djúpavíkurdagar haldnir og er mikið um að vera að venju. Dagskráin byrjar á föstudegi 12. ágúst með hlaðborði með ítölsku ívafi og tónleikum með Jóhanni Kristinssyni og síðan rekur hver viðburðurinn annan um helgina. Dagskrána má nálgast hér að neðan og nánari upplýsingar fást á www.djupavik.is og á Facebook síðu Hótels Djúpavíkur sem stendur fyrir hátíðinni að venju. 
 

Dagskrá Djúpavíkurdaga:

Við byrjum formlega á föstudeginum kl. 19:00 með kvöldverðahlaðborði með ítölsku ívafi.  Sækjum hugmyndir í eldhús Ítala, m.a. pasta og pizzur.  Verð kr. 2.500,- f. fullorðna og ½ fyrir börn.

Kl. 21:30 verða tónleikar með Jóhanni Kristinssyni. Hann hefur ferðast um Evrópu í tónleikaferðir, hefur m.s. spilað á Spot Festival í Danmörku og tók þátt í Melodica Festival hérna heima og spilaði í aðdraganda þess fyrir okkur hérna í Djúpavík í fyrra, ásamt fleirum.  Hann er á förum til Bandaríkjanna til tónleikahalds eftir helgina. Aðgangseyrir er kr. 1.500,- .., kr. 1.000,- fyrir matargestir.

Á laugardaginn verður ýmislegt til gamans gert fyrir utan að fara okkar hefðbundnu leiðsöguferðir í gegnum verksmiðjuna, en þær eru samkvæmt venju kl. 10:00 og 14:00.  

Kl. 15:00 verður farið í sjóferð á Djúpfara og gáð að hvölum og rennt fyrir fisk samtímis.  Stórhveli hafa verið hér í æti á firðinum öllum til óblandinnar ánægju og vonumst við til að fleiri getið notið þess að sjá þá.  Verð kr. 1.000,- og ½ fyrir börn.

Farið verður í aðra sjóferð kl. 17:00 ef eftirspurn er nægjanleg.

Kl. 19:00 á laugardagskvöldið verður síðan okkar árlega sjávarréttahlaðborð með ljúffengum réttum sem lagaðir eru úr auðæfum hafsins.

Kl. 21:30 verða tónleikar með Svavari Knúti.  Svavar er löngu landsþekktur og hefur farið í tónleikaferðir bæði um Evrópu og til Bandríkjanna.  Ekki ef vafi á að Svavar Knútur mun fara á kostum eins og honum einum er lagið.  Aðgangseyrir er kr. 1.500,- og kr. 1.000,- fyrir matargesti.

Sunnudaginn 14.ágúst kl. 14:00 verður síðan eitt af okkar frábæru kökuhlaðborðum. Við segjum sem fyrr: Góðar kökur, gott verð.   Kr. 1.750.- fyrir manninn.  ½ gjald fyrir börn frá 6 ára að 12 ára.