30/10/2024

Danni fékk tilþrifaverðlaun

Daníel Ingimundarson, torfærukappi frá Hólmavík, fékk tilþrifaverðlaunin í síðustu torfærukeppni sem haldin var á Blönduósi. Hann lenti í 5. sæti í keppninni og gekk frekar illa að hans sögn. Engu að síður þá sýndi hann flottustu taktana þegar hann komst upp eina skæðustu brekku keppninnar í ár, en aðeins einn annar bíll auk Green Thunder Daníels komst upp hana.

"Ég komst með framhjólin upp á brekkubrúnina en þá fór bíllinn að hallast ískyggilega afturábak og ég hugsaði að þetta væri búið og leist ekkert á blikuna, en ég náði að slá í elskuna á nákvæmlega réttum tíma og það var engu líkara en græjan gengi upp brúnina síðasta spölinn", sagði Danni við tíðindamann strandir.saudfjarsetur.is og bætti svo kampakátur við: "Þetta er rosalega flott á vídeói, helvíti flott, en með þessari frammistöðu þá komst ég upp um eitt sæti og náði mér upp úr því sjötta eins og ekkert væri".

Hér að neðan eru myndir af Grænu þrumunni með Danna við stýrið að kjaga upp þverhníptan hamarinn í keppninni á Blönduósi. Þessar æfingar færðu honum svo tilþrifabikarinn mikla.

Ljósmyndir Oddur goði og JAK