22/12/2024

Dagskrá færð í félagsheimilið

Það er ekki hægt að segja að veðurguðirnir leiki við Hólmvíkinga þessa stundina, en nokkuð hvasst er í bænum og skúrir við og við. Því hefur verið tekin ákvörðun um að færa alla dagskrá sem vera átti á útisviði, bæði í dag og kvöld, inn í félagsheimilið. Dagskrá þar hefst kl 13:30 og stendur til 16:00, og þar verður einnig kökuhlaðborð og Hamingjutónar kl. 20:00 í kvöld. Sölubásar verða líka í félagsheimilinu, en önnur dagskráratriði verða á áður auglýstum stöðum. Hitt er svo annað mál að Veðurguðirnir munu sannarlega verða skemmtilegir í kvöld, en þá leika þeir á balli í félagsheimilinu fyrir gesti Hamingjudaga.

"Það rignir reyndar aðeins og sólin ekki sést,
það skiptir ekki máli því Hólmavík er best."

(Úr Hamingjulaginu 2007)