30/10/2024

Dagatöl með teikningum frá Hólmavík

Ein myndin á dagatalinuKomin eru út dagatöl fyrir árið 2009 með teikningum frá Hólmavík, Bolungarvík, Ísafirði og Súðavík. Fást dagatölin með Hólmavíkurmyndunum á Jólamarkaði Strandakúnstar á Galdrasýningunni sem opin er 14-18 um helgar og 14-16 virka daga. Það er listafólkið Ómar Smári Kristinsson og Nína Ivanova sem gerir dagatölin, en svipuð dagatöl hafa komið út síðustu ár með myndum af stöðum á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem teikningar frá Hólmavík birtast á dagatali eftir Ómar Smára og Nínu.

Þegar Ómar Smári Kristinson og Nína Ivanova sinntu veðurathugunum og fleiru, í Æðey í Ísafjarðardjúpi, voru þau tiltölulega óþekkt á Vestfjörðum. Þau höfðu því nokkurn frítíma, milli athugana og gegninga, til að prófa hluti og þróa. Á þessum tíma bjuggu þau til teiknifígúru sem þau kölluðu vestfirskan útlaga og voru myndir af honum voru til sölu í Rammagerðinni á Ísafirði. Hann var síðan hráefnið í fyrsta dagatalið og kom í ljós að dagatölin seldust betur en frummyndirnar. 

Smári og Nína fóru að prófa að gera dagatöl með fleiri vestfirskum myndefnum og fengu til þess hvatningu frá vinum og vandamönnum. Landslagsmyndir, húsamyndir og skipamyndir prýddu þau dagatöl, en áhuginn á húsamyndunum var áberandi mestur. Fyrst teiknuðu þau myndir af ísfirkum húsum og hefur síðan þá komið út Ísafjarðardagatal fyrir hver jól. Árið 2004 kom svo út fyrsta Bolungarvíkurdagatalið og hefur það líka haldist óslitið. 

Öðrum byggðarlögum eru svo gerð skil, eftir því sem tími vinnst til, en þetta er tímafrek vinna og lítil sala þegar fámenn pláss eru myndefnið. Á hverju ári er einhver ný nálgun, hvort sem það er staðaval, sjónarhorn, teikniaðferð eða annað. Viðamesta verkið var samanburður tímanna tveggja. Þá teiknaði Smári eftir gömlum ljósmyndum frá Ísafirði og Bolungarvík. Svo fann hann nákvæmlega sömu sjónarhorn og teiknaði myndir af þeim eins og þau voru akkúrat þá stundina. 

Hin síðustu árin hefur Smári teiknað allar myndirnar, en Nína hefur séð um umbrot og prentun. Öll dagatölin eru prentuð og unnin á heimili þeirra.