Hinn glæsilegi veitingastaður Café Riis á Hólmavík hefur auglýst sumaropnunina en staðurinn opnar að nýju fimmtudaginn 2. júní n.k. Vel verður gert í mat og drykk opnunardaginnn en þá verður ítalskt pizza og pastahlaðborð í fyrirrúmi fyrir alla fjölskylduna og stendur frá kl. 17:00 – 20:00 en staðurinn verður opinn fram eftir kvöldi, til klukkan 11:30. Opnunartími Café Riis í sumar verður frá 11:30 til 23:30 sunnudaga til fimmtudaga og frá 11:30 til 03:00 á föstudögum og laugardögum. Næstkomandi laugardagskvöld verður haldið upp á sjómannadaginn á Café Riis en þá verður veisluhlaðborð frá kl. 18:00 – 21:00 og eru þeir sem hafa áhuga á að snæða dýrindis rétti af tilefni dagsins hvattir til að panta borð tímanlega í síma 451-3567, fyrir 2. júní.
Dansleikur verður svo um kvöldið undir tónlist Þórunnar og Halla frá Ísafirði sem eru Strandamönnum að góðu kunn, en þau hafa skemmt þar nokkrum sinnum áður. Nýjir eigendur Café Riis hafa undanfarið verið að standsetja staðinn fyrir sumarið og þegar tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is leit þar inn í dag þá var verið að leggja lokahönd á matseðilinn, sem lofar svo sannarlega góðu. Í það minnsta þá fór gesturinn þaðan út með tilhlökkun að mæta sem fyrst aftur og prófa fleiri ljúffenga rétti sem prýða munu fjölbreyttan matseðilinn.