22/12/2024

Bundið slitlag alla leið á Drangsnes

645-nyrvegur2
Búið er að leggja bundið slitlag á nýja veginn við botn Steingrímsfjarðar og umferð var hleypt á hann á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgi. Þannig er sá langþráði áfangi í höfn að nú er hægt að aka frá hringveginum um Bröttubrekku og Arnkötludal til Drangsness á bundnu slitlagi. Vegagerð um botn Steingrímsfjarðar var í hópi vegaframkvæmda sem voru skilgreindar sem sérstök flýtiframkvæmd vegna samdráttar í þorskafla árið 2007. Eftir er að setja upp samtals um 2 kílómetra af vegriðum við nýja veginn, ganga frá brúarhandriðum, sinna ýmsum frágangi og leggja seinni umferðina af bundnu slitlagi, en þessum verkum á að ljúka í haust.

645-nyrvegur1

Nýi vegurinn liggur neðan við Stakkanes og Grænanes. Ný brú yfir Staðará leysir þá gömlu af hólmi og er þá aðeins ein einbreið brú eftir milli Hólmavíkur og Drangsness, yfir Selá. – ljósm. Jón Jónsson.