25/11/2024

Búið að tilkynna lið Strandabyggðar í Útsvari

645-seidurunnin

Búið er að tilkynna keppnislið Strandabyggðar sem mun taka þátt í hinni gríðarskemmtilegu spurningakeppni Útsvari sem RÚV stendur fyrir nú í vetur. Þetta kemur fram á vefsíðu sveitarfélagsins. Þau gáfumenni og gleðigjafar sem munu taka þátt í keppninni fyrir hönd Strandabyggðar og spreyta sig á lymskulegum og lævísum spurningum þáttarstjórnenda eru Þorbjörg Matthíasdóttir frá Húsavík, Sverrir Guðmundsson á Hólmavík og Arnar Snæberg Jónsson frá Steinadal. Eftir að tilkynnt var að Strandabyggð ætti kost á að vera með í keppninni hefur ríkt almenn gleði og glaumur á svæðinu, fögnuður hefur gripið menn heljartökum og spennustigið er rétt að verða óbærilegt. Strandabyggð segir í tilkynningu að sveitarfélagið þakki kærlega fyrir að fá þetta skemmtilega tækifæri og sé stolt af liðinu sem sent verður til leiks, hvernig svo sem veröldin veltist að keppni lokinni.