25/11/2024

Breytingar í Reykjanesi

Jón Arnar Gestsson hefur tekið við starfi staðarhaldara á Reykjanesi við Djúp. Jón Arnar er Strandamönnum að góðu kunnur, því hann var áður helsti tengiliður netþjónustunnar Snerpu á Ísafirði sem rekur þráðlaust háhraðanet á Hólmavík og Drangsnesi og víðar í Steingrímsfirði. Einnig hefur Jón Arnar verið að byggja sér sumarbústað norður í Árneshreppi, í landi Steinstúns. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is sló á þráðinn til Jóns Arnars og spurði frétta og komst þá að því að hann hafði í mörg horn að líta eftir 90 manna fund og ráðstefnu í gær.

Ætlunin er að auka afþreyingu á Reykjanesi nú í sumar, boðið verður upp á skipulagðar gönguferðir og sjóferðir frá Reykjanesi  og er bátur sem notaður verður til þess á leiðinni vestur í dag. Þá segir Jón Arnar að ætlunin sé að opna nýjan veitingastað með kráarívafi á neðri hæðinni í skólahúsinu, til viðbótar við matsalinn sem fyrir er. Þá verði komið upp tveggja átta háhraðanetsambandi í Reykjanesi sem stendur gestum Ferðaþjónustunnar til boða. 

Til viðbótar við fasta starfsmenn verður ráðið aukafólk um helgar og er það sótt til Hólmavíkur. Enn er laus aukavinna og vaktir fyrir fleiri og Strandamenn sem eru áhugasamir um helgarvinnu við Djúp í sumar eru hvattir til að hafa samband við Jón Arnar. Vefsíða Ferðaþjónustunnar Reykjanesi er á slóðinni www.rnes.is.

Ljósm. af vef bb.is og Ferðaþjónustunnar Reykjanes.