22/12/2024

Breyting á veglínu Kópnesbrautar fyrirhuguð

Á vef sveitarfélagsins Strandabyggðar – www.strandabyggd.is – kemur fram að fyrirhugað er að breyta veglínu Kópnesbrautar á Hólmavík, þegar farið verður í að leggja bundið slitlag á götuna. Ekki kemur fram í fréttinni hvenær búast má við því þjóðþrifaverki, en býsna margar götur á Hólmavík eru ómalbikaðar miðað við önnur þorp af svipaðri stærðargráðu á landinu þar sem slíkt er sjaldgæft nema um nýjar götur sé að ræða. Fram kemur að allir sem áhuga hafa séu hvattir til að kynna sér tillögu um nýju veglínuna á Kópnesbraut, en teikning af tillögunni mun liggja frammi á skrifstofu Strandabyggðar.