Aðsend grein: Soffía Vagnsdóttir
Hvenær verður kona Bolvíkingur? Líklega þegar hjartað fer að slá í takt við íbúana þar. Helga Vala Helgadóttir er bolvísk kona í framboði. Um helgina fer fram prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Ég finn fyrir aldagömlum ofurkrafti Þuríðar sundafyllis þegar ég tek ákvörðun um að setja Helgu Völu Helgadóttur í 2. sæti framboðslistans, – sætið sem hún sjálf hefur óskað eftir. Helga Vala minnir mig um margt á vestfirska valkyrju eins og ég ímynda mér hana. Hún er dugleg og ósérhlífin, fjölhæf, hugmyndarík, grjóthörð í skoðunum, heiðarleg í framsetningu þeirra, hefur sterka réttlætiskennd, er fljót að lesa aðstæður og síðast en ekki síst, – Helga Vala er góð manneskja. Hún er líka glæsileg og brosmild.
Helga Vala hefur ekki haft mikinn tíma til að kynna sig á svæðinu þó landsmenn flestir þekki hana úr fjölmiðlum. Þrátt fyrir það hefur hún sjarmerað Bolvíkinga upp úr skónum. Helga Vala er þegar orðin landsbyggðarmanneskja, – eða er kannski rétt að segja að hún sé orðinn sannur Íslendingur, – Íslendingur sem bar hag allra landsmanna fyrir brjósti. Þrátt fyrir að hafa dvalið hér svo skamman tíma hefur hún séð að mörgu er ábótavant í jafnræðinu. Hún hefur því verið óþreytandi á sviði fjölmiðlanna við að tala máli síns nýja heimabæjar og Vestfjarða allra. Hún hefur gert sérstaka þætti þar sem Bolungarvík kemur við sögu, þar sem hún hefur varpað ljósi á hina breyttu samfélagsmynd Vestfjarða með tilliti til fjölmenningarsamfélagins og talar af miklum krafti fyrir þeim sjálfsögðu réttindum svæðisins að bætt verði úr vegasamgöngum, háhraðattengingum að unnið verði að fjölbreyttari atvinnutækifærum og mörgu fleiru. Helga Vala er dæmi um konu sem Bolungarvík þarf á að halda og getur státað af. Menntaða konu með metnað fyrir hönd sins svæðis. Ef rödd hennar fær að heyrast á Alþingi getum við Vestfirðingar verið vissir um að rödd okkar heyrist þar. Hún mun tala okkar máli.
Það fylgir því ferskleiki að fá unga konu eins og Helgu Völu á þing, en ekki bara vegna þess að hún er ung heldur vegna þess hver hún er og fyrir hvað hún stendur.
Helga Vala hefur vegna fyrri reynslu sinnar mikið og öflugt tengslanet út um þjóðfélagið vítt og breytt og það flýtir fyrir ýmsum leiðum þegar sækja þarf á. Þegar prófkjöri Samfylkingarinnar lýkur um helgina leikur enginn vafi á því að eftir stendur framboðslisti sem verður sá öflugasti í kjördæminu.
Samfylkingin þarf að komast í ríkisstjórn – það er engin spurning.
Verum öflug í þátttökunni um helgina, nýtum okkur rétt okkar til að velja fólk í framvarðarsveitina. Helga Vala Helgadóttir verður vonandi þeirra á meðal.
Soffía Vagnsdóttir, Bolungarvík