22/12/2024

Bogi frá Heydalsá og Gosi frá Ytri-Skógum bestu hrútarnir

300-hrutaverdlaun2012
Á vef Bændablaðisins – www.bbl.is – er greint frá því að í lok málþings um sauðfjárrækt sem haldið var að loknum aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda voru afhent verðlaun fyrir besta lambhrútinn og besta kynbótahrútinn á síðasta ári. Jón Viðar Jónmundsson lýsti verðlaunahrútunum en besti lamhrúturinn (lambafaðirinn) 2010-2011 var Gosi frá Ytri-Skógum sem er í eigu Sigurðar Sigurjónssonar bónda. Besti  alhliða fullorðni hrúturinn var Bogi frá Heydalsá í Steingrímsfirði sem er í eigu Ragnars Bragasonar. Meðfylgjandi mynd er af vef Bændablaðsins, merkt HKr.

Fanney Ólöf Lárusdóttir frá Kirkjubæjarklaustri sagði við afhendinguna að þetta væri í fjórða sinn sem þessi verðlaun væru veitt. Jón Viðar sagði að Gosi frá Ytri-Skógum væri fæddur 2009 og að strax 2010 hafi hann sýnt einhverja mestu yfirburði við skoðun sem sést hefur. Hann á nú þegar fjölda afkomenda.

Bogi frá Heydalsá kom inn á sæðingastöð 2008 eftir að hafa vakið athygli heima fyrir. Sagði Jón Viðar að hann hafi skilað gríðarlega góðum sláturlömbum og sérstaklega fitulitlu kjöti. Þá hafi Bogi  verið kominn með fleiri hrúta í toppgæðum í sínum afkomendahóp á landsvísu en áður hefur sést áður en hann fór á sæðingastöð. „Það er ekkert vafamála að Bogi er mesti alhliða kynbótahrútur sem enn hefur komið fram á sjónarsviðið í ræktun,“ sagði Jón Viðar.

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru frá vinstri: Fanney Ólöf Lárusdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Ragnar Bragason og Jón Viðar Jónmundsson. Mynd /HKr.