21/11/2024

Bílvelta við Brú

Um eittleytið í dag varð bílvelta skammt norðan við veitingaskálann Brú í Hrútafirði, samkvæmt kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þar fór jeppi út af veginum og maður á fertugsaldri hlaut nokkur beinbrot og slasaðist talsvert. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á Landsspítalann í Fossvogi. Lögregla telur að ástæða veltunnar sé sú að dekk hafi sprungið á bílnum og maðurinn hafi við það misst stjórn á honum.

Á mbl.is og bb.is er sagt svo frá að veltan hafi orðið skammt frá Hólmavík í Strandadjúpi, en ekki er vitað hvar það Strandadjúp er. Á visir.is er hins vegar sagt að hún hafi orðið skammt frá Hólmavík. Milli Brúar í Hrútafirði og Hólmavíkur eru 115 kílómetrar og með sömu landafræðikunnáttu má búast við að sjá í fréttum að bílvelta sunnan við Búðardal hafi orðið rétt hjá Akranesi.