22/11/2024

Bílvelta og maður fyrir borð

Í tilkynningu frá lögreglu kemur meðal annars fram að föstudaginn 7. maí varð bílvelta skammt vestan við Broddanes í Kollafirði. Þar hafnaði bifreið út fyrir veg og valt eina til tvær veltur. Ökumaður og fjórir farþegar voru fluttir á Heilsugæslustöðina á Hólmavík til skoðunar.  Bifreiðin var óökuhæf og flutt af vettvangi með krana. Tvö vinnuslys voru tilkynnt til lögreglu, bæði í Strandasýslu. Annað slysið varð með þeim hætti að sjómaður á grásleppubát flækti annan fótinn í tógi þegar verið var að leggja netin og kastaðist  fyrir borð. Félagi mannsins náði honum fljótlega um borð aftur. Sá sem í sjóinn fór kenndi sér eymsla í fæti og fór í skoðun á Heilsugæslustöðina á Hólmavík.

Þriðjudaginn 4. maí  tilkynnt um að refaskytta hefði dottið og fótbrotnað rétt innan við Hólmavík og var hann fluttur á Heilsugæslustöðina og í framhaldi af því með sjúkraflugi til Reykjavíkur til frekari skoðunar.

Þá voru átta ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í lögregluumdæminu. Þrír voru stöðvaðir í og við Ísafjarðarbæ, einn á Patreksfirði og fjórir í nágrenni við Hólmavík. Sá sem hraðast ók, var mældur á 126 km/klst, þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.