Tónleikaröðin Mölin mun vakna úr sumardvala laugardagskvöldið 5. október næstkomandi en þá mun tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm sækja Strandamenn heim og halda tónleika á Malarkaffi á Drangsnesi. Benni Hemm Hemm er listamannsnafn Benedikts Hermanns Hermannssonar en líka hljómsveit, listahópur, samfélag og lífsstíll. Fyrsta útgáfa Benna Hemm Hemm var þröngskífan Summerplate sem kom út í krossviðspakkningu í takmörkuðu upplagi árið 2003. Síðan þá hefur Benni verið iðinn við kolann og gefið út 4 breiðskífur auk fjölda smáskífna og annarra verka. Benni Hemm Hemm hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín og hlaut meðal annars Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2005 fyrir plötu ársins sem var samnefnd hljómsveitinni.
Tónlist Benna Hemm Hemm er dægurtónlist með margvíslega skírskotun þar sem hið hefðbundna form er brotið upp með fjölbreyttum takttegundum óvæntum uppbrotum, sérstæðum textum og kraftmiklum laglínum. Á flestum platna og tónleika Benna nýtur hann liðsinnis stórs hóps tónlistarmanna, lúðraþeytara, hljómborðsleikara og slagverksleikara og á plötunni Skot brá hljómsveitin Retro Stefson sér í hlutverk hljómsveitar Benna Hemm Hemm. Á tónleikunum á laugardaginn mun Benni hins vegar flytja tónlist sína einn og óstuddur með kassagítarinn og því ljóst að fágaðar og vandaðar lagasmíðar hans munu fá að njóta sín til hins ítrasta.
Venju samkvæmt mun tónlistarmaðurinn Borko flytja nokkur lög áður en Benni Hemm Hemm stígur á svið. Húsið opnar klukkan 21:00 og tónleikarnir hefjast um kl.21:30. Miðaverð er 2000 kr.