23/12/2024

Benedikt Bjarnason í 3.-4. sæti

Aðsend grein: Benedikt Bjarnason
Nú fer í hönd prófkjör Samfylkingarinnar. Nú þurfa kjósendur að vega og meta það sem við frambjóðendurnir höfum fram að færa og kjósa svo eftir sannfæringu sinni. Mikilvægt er að það veljist sigurstranglegur listi sem kemur til með að vinna glæstan sigur í kosningunum næsta vor. Fólk sem getur umbylt því kerfi ójafnaðar og misskiptingar sem nú er við lýði. Fólk með nýjar áherslur og skýra framtíðarsýn.

Ástæður framboðs míns er óbilandi trú á uppbyggingu landsbyggðarinnar. Með markvissri og metnaðarfullri stefnu í samgöngumálum mun samkeppnisstaða kjördæmisins styrkjast verulega ásamt bættum búsetuskilyrðum. 

Færa þarf verkefni frá ríki til sveitarfélaga enda eru sveitastjórnir best í stakk búnar til að taka ákvarðanir um nærþjónustu við íbúa. Styrking sveitastjórnarstigsins er í raun áhrifaríkasta leiðin til að styrkja byggðir landsins.

Menntakerfið er drifkraftur framfara og framsækni. Tryggja þarf að efnahagur fólks hamli því ekki frá námi.  Menntamál eru einnig sá málaflokkur sem er hvað best er til þess fallin að minnka ójöfnuðinn í þjóðfélaginu. Samfélag sem telur um 300 þúsund manns hefur ekki efni á ójöfnuði.

Atvinnulíf okkar Íslendinga hefur tekið stórstígum framförum á undanförnum áratug. Við eigum að halda áfram á þessari braut  og tryggja jafnframt að kaupmátturinn skili sér til allrar þjóðarinnar. Við erum að stíga inn í nýja tíma þar sem frumvinnslugreinarnar munu hafa minna vægi en áður. Framtíðar hagvöxtur verður knúinn áfram af rannsóknum og þróun. Okkar helstu tæknifyrirtæki eru þegar byrjuð að vinna eftir þessu viðskiptamódeli sem felst í því að vinna frumvinnslustörf erlendis. Sú þróun getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið allt og sérstaklega byggðarlög hér í kjördæminu. Ef við tryggjum ekki heimsklassa menntakerfi þá er mikil hætta á að mannauðurinn, okkar mikilvægasta auðlind, fari úr landi og þar með hagsældin líka. 
 
Á ferð minni um kjördæmið hef ég hlustað á áherslur og málefni fólks, ég er meira en tilbúinn til að fylgja þeim áherslum og málefnum eftir. Ég býð mig fram í þriðja til fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og bið um stuðning ykkar til minna handa.

Höfundur er Benedikt Bjarnason sem sækist eftir 3 til 4 sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.