22/12/2024

Ballið á Bessastöðum sýnt í Búðardal

ball2

Leikfélag Hólmavíkur og Grunnskólinn á Hólmavík hafa nú lokið sýningum á Ballinu á Bessastöðum á Hólmavík. Ævintýrinu er þó ekki alveg lokið, því nú ætlar leikhópurinn að leggja land undir fót og sýna lokasýningu í Búðardal. Sýningin er í Dalabúð sunnudaginn 3. apríl kl. 15.00. Ballið á Bessastöðum er söng- og gleðileikur fyrir alla fjölskylduna og mikið um dýrðir. Áhorfendur fá innsýn í líf og störf forsetans og starfsfólks á Bessastöðum, kynnast alvöru prinsessu og konungshjónum. Við förum í útilegu, brúðkaup, hittum landnámshænu og skoðum skýin. Á Bessastöðum er alltaf nóg af draugagangi, kransakökum, fálkaorðum og fjöri. Höfundur verksins er Gerður Kristný, höfundur tónlistar Bragi Valdimar Skúlason og leikstjóri Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir. Miðaverð 2500 f. 14 ára og eldri en 1500 f. 4-13 ára og tekið við kortum. Frítt fyrir yngri.