30/10/2024

Atvinnuskapandi menningarstarf verður til umræðu á súpufundi

Á vikulegum súpufundi Þróunarsetursins á Hólmavík og Arnkötlu 2008 fimmtudaginn 19. mars, mun Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða fjalla um mátt menningar til atvinnuskapandi verkefna. Jón starfar hjá Menningarráði Vestfjarða sem er samstarfsvettvangur allra sveitarfélaga á Vestfjörðum um menningarmál og hafa meðal annars það hlutverk að samræma aðgerðir á sviði menningarmála á starfssvæðinu, standa fyrir öflugu þróunarstarfi og úthluta fjármagni til menningarverkefna á Vestfjörðum samkvæmt samningi ríkis og sveitarfélaga. Sérstök áhersla er lögð á að menningarverkefni séu atvinnuskapandi og fjölgi störfum í fjórðungnum.

Þetta verður níundi súpufundurinn í vetur sem eru haldnir í hádeginu á Café Riis alla fimmtudaga í vetur. Mjög vel er látið af fundunum og þátttaka á þeim hefur verið framar öllum vonum.

Tilgangur með fundunum er að auka vitneskju heimamanna um fjölbreytt atvinnulíf á Ströndum og ekki síður að efla skilning á milli atvinnugreina með því að leiða saman frumatvinnugreinarnar og nýsköpun í atvinnulífi. Stefnt er að því að opna atvinnu- og menningarmálasýningu í Félagsheimilinu á Hólmavík á vordögum sem verður uppi allt sumarið og mun undirstrika öflugt og fjörugt atvinnu- og mannlíf á Ströndum. Súpufundirnir hefjast klukkan 12:00 og standa til kl. 13:00.

Það eru allir hjartanlega velkomnir og hvattir til að mæta.