Fleiri viðburðir setja svip á dagskrána yfir sumarið, hátíðisdagar á Sauðfjársetrinu í Sævangi eins og Furðuleikarnir og Hrútadómarnir vekja mikla athygli, eins og Draugadagar á Galdrasýningunni og fjöldi viðburða í tengslum við starfsemi Café Riis, Hótel Djúpavíkur og fleiri aðila. Skipulagðar gönguferðir og bátsferðir í Grímsey standa líka til boða, svo dæmi séu nefnd.
Einnig má telja að vetrardagskráin sé óvenjulega þéttskipuð miðað við fólksfjölda, alla vega á Hólmavík. Tónlistarskólinn og skemmtanir á vegum grunnskólanna hafa töluvert vægi yfir veturinn, en einnig er oft öflugt starf hjá Leikfélaginu á Hólmavík og kvennakórnum. Tónleikar og leiksýningar eru reglulega. Þorrablót, góugleði, árshátíðir, jólahlaðborð, karókíkeppni, spurningakeppni, bingó og spilakvöld eru jafnan líka á dagskrá á veturnar síðustu vetur. Einnig er töluvert um að vera á íþróttaæfingum hjá yngri kynslóðinni og börn í ungmennafélögum héraðsins taka þátt í nokkrum íþróttamótum utan héraðsins á hverjum vetri, eins og á sumrin.
Í framhaldi af þessari samantekt er sjálfsagt að velta dálítið fyrir sér hvort og hvernig megi virkja atburði og uppákomur betur í ferðaþjónustunni. Ávinningurinn fyrir heimamenn af því er augljós því að eftir því sem fólkinu fækkar er ljóst að markaðurinn fyrir atburði minnkar um leið. Afleiðingin er eðlilega sú að atburðum fækkar og ef aðsókn er lítil minnkar ávinningur og áhugi þeirra sem fyrir þeim standa. Ef hins vegar er hægt að fá utanaðkomandi gesti á atburðina sem vega á móti fólksfækkuninni er hægt að halda þeim áfram. Á sama hátt er nú þegar fjöldi menningaratburða á hverju ári aðgengilegur íbúum á Ströndum, en væri ekki fyrir hendi nema af því þeir eru vel sóttir af ferðafólki.
Það eru sex atriði sem ég vil ræða sérstaklega í þessu samhengi, þar sem ég tel að þar séu sóknarfæri:
1) Náttúruskoðun og útivist
Svo sumarið sé skoðað fyrst þá er spurning hvort ekki sé hægt að gera töluvert meira út á útivist og náttúruskoðun, en nú er gert. Ímynd svæðisins tengist óneitanlega gönguferðum og útivist sterkum böndum, en að mörgu leyti er lítil þjónusta í boði fyrir þá sem hafa fyrst og fremst áhuga á þessum hlutum. Það er líka erfitt að ná til þessa hóps að mörgu leyti. Þetta þarf því að vera vel skipulagt og byggjast bæði upp á atburðum og aðstöðu, upplýsingamiðlun, merkingum og kortaútgáfu og þess háttar. Hestaleiga, sjósport, skipulagðar gönguferðir, hjólaferðir, píslargöngur, víðavangshlaup, fuglaskoðun, náttúruskoðun – allt er þetta eitthvað sem hægt er að vinna meira með.
Gallinn er helst hversu fátt fólk tekur þátt í mörgum slíkum uppákomum fyrstu árin, ef ekki er staðið þess betur að markaðssetningu. Því er spurning hver ætti að hafa frumkvæði að eflingu ferðaþjónustunnar á þessu sviði, því þetta er tímafrekt, þarfnast mikillar og margra ára þolinmæði og erfitt er að sjá fleti á því að gera slíkt að gróðafyrirtæki.
Á hinn bóginn geta ýmis starfandi fyrirtæki skoðað hvernig hægt er að flétta slíkar uppákomur inn í starfsemi sína og hafa reyndar sumir verið duglegir við það eins og Kört og Hótel Djúpavík sem hafa staðið fyrir gönguferðum, Sundhani sem heldur úti skipulögðum ferðum í Grímsey, Sauðfjársetrið sem hefur staðið fyrir blómaskoðun og fjöruferðum. Margt má þó þróa áfram og spurning hvernig er hægt að efla þessa starfsemi. WOW verkefnið sem Strandagaldur hefur undirbúið gæti líka orðið stórt skref í rétta átt á þessu sviði.
Eitt sem nefna má sérstaklega sem möguleika sem er líklegt að góð þátttaka yrði í eru göngu- og söguferðir um þorpin. Slíkar ferðir mættu gjarnan vera reglulega á dagskrá yfir sumarið. Þetta held ég að væri kjörið verkefni fyrir svæðisleiðsögumenn sem vilja halda sér í æfingu, auðvelt og skemmtilegt verkefni.
Það væri líka hugsanlegt að halda eins konar útivistarhátíð á Ströndum yfir sumarið, eins og t.d. var gert á Tálknafirði síðasta sumar og á Ísafirði þar sem Útilífveran er árleg hátíð. Þetta var í umræðunni hér á Ströndum sumarið 1998. Þá var hugmyndin að fjöldi atburða væri settur á sömu vikuna, skipulagðar gönguferðir, hestaferðir og skoðunarferðir og gestir áttu síðan að flykkjast á svæðið og geta valið úr fjölda atburða til að taka þátt í og fá stimpla í útivistarhátíðarkortið sitt í hverri ferð, en stimplaæðið stóð þá sem hæst.
2) Verslunarmannahelgin
Annað sem betur mætti fara í ferðaþjónustunni er verslunarmannahelgin. Það er oft lítið af gestum á Ströndum á þessari mestu ferðahelgi ársins hér á landi, enda er ekkert um að vera fyrir þá. Þetta er helgin sem menn leita á náðir skipulagðrar afþreyingar og það þurfa ekkert endilega að vera drykkjuhátíðir. Ferðaþjónar á Ströndum ættu að skoða alvarlega hvort og hvernig þeir geta aukið hlut sinn í ferðaþjónustunni þessa helgi, ég er viss um að þar eru mikil sóknarfæri – sérstaklega í að höfða til íslenskra ferðamanna sem hafa áhuga á öðru en drykkjusamkomum.
Ég er því ekki að leggja til að Skeljavíkurhátíðin verði endurvakin, þó það hafi verið gaman í Skeljavík þau tvö ár sem haldin var útihátíð þar á verslunarmannahelginni í kringum 1987. Það er reyndar heldur varla hægt lengur að standa fyrir tónlistarhátíðum eins og Strandagaldur stóð fyrir í Bjarnarfirði 2001 vegna þeirra sérstöku landsbyggðarskatta sem nú eru lagðir á slíkar skemmtanir utan þéttbýlis í formi greiðslna fyrir löggæslu. Bæjarhátíðir sitja við allt annað borð hvað það varðar þó að munurinn á þessum skemmtunum sé í sjálfu sér stigsmunur en ekki grundvallar. Þá mismunun þarf að afnema, rétt eins og þann mismun sem gerður milli landsbyggðar og stærri bæja á þessu sviði skattlagningar.
3) Atburðir fyrir erlenda gesti
Í þriðja lagi langar mig að ræða stuttlega hvernig gera megi marga þá atburði sem nú eru haldnir aðgengilega fyrir erlenda ferðamenn. Þetta á bæði við um markaðssetningu atburða sem er næstum aldrei beint að erlendum ferðamönnum og svo uppákomurnar sjálfar. Draugadagarnir á Galdrasýningunni eru nánast einu atburðirnir sem sérstaklega eru sniðnir að erlendum gestum jafn og íslenskum. Samt sem áður má gera ráð fyrir að margir erlendir ferðamenn hafi gaman af atburðum eins og hefur reyndar sýnt sig með hátíðirnar þar sem erlendir gestir skemmta sér konunglega og fá upplýsingar frá öðrum gestum, einnig þeir sem stalda við á Hrútaþuklinu á Sauðfjársetrinu sem er auðvitað einstök skemmtun og fleiri atburðum. Erlendir gestir sem lenda á slíkum uppákomum af tilviljun hafa mjög gaman af.
Þetta er eitthvað sem þeir sem standa fyrir atburðum verða sjálfir að huga að, bæði hvernig megi láta erlenda ferðamenn vita af atburðum (bæði til að draga þá að og eins til koma upplýsingum til þeirra sem eru svæðinu hvort sem er) og hinu hvernig hægt er að þróa atburðina sjálfa þannig að þeir henti betur erlendum gestum og höfði til þeirra.
4) Íþróttatengd ferðaþjónusta
Héraðssamband Strandamanna stendur fyrir nokkrum íþróttamótum á hverju sumri fyrir félaga í ungmennafélögum á svæðinu. Á vetrum eru svo skíðamót þar sem Strandagangan ber hæst hér á svæðinu og hefur mikið aðdráttarafl. Þá standa brottfluttir Strandamenn fyrir tveimur mótum í innanhúsbolta í Íþróttamiðstöðinni Hólmavík (sem ég legg til að breytt verði um nafn á og hún kölluð Steingrímströllahöll hér eftir) og eiga Flosi og félagar heiður og þökk skilið fyrir það framtak. Þetta getur haft töluvert að segja í ferðaþjónustunni og sjálfsagt að byggja dálítið í kringum þessi mót svo þau verði öflugri og velja þeim tíma í takt við annað sem er að gerast (eins og hefur reyndar verið gert).
Held að það væri rétt að ungmennafélög, skólar og ferðaþjónar spekúleri saman í hvort ekki sé hægt að halda fleiri slík mót utan háannar í ferðaþjónustunni. Opnun á nýju íþróttamiðstöðinni á Hólmavík gefur ýmsa möguleika, til dæmis væri hægt að halda körfuboltamót fyrir skólabörn í nálægum byggðalögum, sundmót eða annað slíkt. Til þess þarf að vísu að ganga frá ýmsum atriðum í miðstöðinni, en þegar búið er að gera íþróttamiðstöð fyrir hundruð milljóna á ekki að láta ógert að ganga frá smámálum sem skipta máli í því samhengi eins og áhorfendabekkjum og lágum hliðum fyrir innanhúsboltann milli límtrésbitanna, körfum fyrir yngri kynslóðina þvert á völlinn, skotklukku og slíku. Ég hef nokkrum sinnum farið með börnunum mínum á svona mót annars staðar og það er mikil þjónusta í gangi í kringum mótin og það yrði nóg að gera í sundi, sjoppunni, búðinni, gistingu o.s.frv.
Einnig má hugsa sér að fá gesti á íþróttamót utanhúss, skipuleggja boltamót fyrir yngri flokka sem yrði haldið á Ströndum (fullt af völlum – í Sævangi, Skeljavík, (Brandskjólum) og Drangsnesi hér um miðbik sýslunnar að ógleymdum sparkvellinum) eða þá mót í öðrum íþróttagreinum. Smáþjóðaleikar á íslenska vísu væru skemmtilegir, jaðarbyggðamót þar sem Reykhólasveit, Dalabyggð, Strandir og Húnaþing vestra og jafnvel fjarlægari sveitir myndu reyna með sér í völdum greinum. Hér er allt til alls. Svo má náttúrulega ekki gleyma möguleikum sem felast í vel kynntum víðavangshlaupum, þríþrautum, hjólreiðakeppnum o.s.frv., gjarnan mætti skoða möguleika á því sviði.
5) Skemmtanir, ráðstefnur og fundir utan háannar
Annað sem þarf að huga að aðstöðu fyrir eru skemmtanir, ráðstefnur og fundir utan háannatíma. Slíkar uppákomur hafa mikið að segja í ferðaþjónustunni. Ég nefni dæmi um galdraráðstefnuna á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði í fyrrahaust fyrstu helgina í september á tíma þegar lítið var orðið að gera á gististöðunum. Slíkar uppákomur hafa mikil margfeldisáhrif og fólk sem kom á ráðstefnuna gisti víðar en á Laugarhóli.
Sama gildir um Landsmót hagyrðinga sem Sauðfjársetrið stóð fyrir á Hólmavík í fyrrahaust. Það var haldið síðustu helgi í ágúst, daginn áður en keppnin í hrútaþuklinu fór fram í Sævangi og var sett á sömu helgi til að gera atburðina eftirsóknarverðari og ferðalagið á Strandir áhugaverðara. Ávinningur samfélagsins og ferðaþjóna af svona uppákomum getur verið mjög mikill, gróflega reiknað þá þyrlaði hagyrðingamótið og fólkið sem kom sérstaklega á það t.d. upp tæpri milljón króna í samfélaginu sem gististaðir, tjaldsvæði, verslunin, söfn, sýningar, handverksfólk og aðrir þjónustuaðilar nutu góðs af. Samfélagið allt hagnast á slíku og þeir sem standa fyrir slíkum atburðum eiga hrós skilið.
Hitt er svo aftur vandamál að aðstaðan fyrir svona ráðstefnur er svo sem ekkert til fyrirmyndar og gistirýmið ekki alltaf nægilegt. Nú veit ég t.d. af ráðstefnuhöldurum sem hafa áhuga á að koma norður og halda nokkuð stóra ráðstefnu á Hólmavík vorið 2008 – ástæðan fyrir staðarvalinu er landsþekkt og öflug starfsemi hér á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Þá vantar gistihús- eða hótelgistingu fyrir 60-100 manns, helst alla á sama stað, og góða og vel útbúna ráðstefnusali þar sem tvær málstofur geta verið í einu. Eins vilja ráðstefnuhaldarar gjarnan að rútufyrirtækið á staðnum bjóði upp á skipulagðar skoðunarferðir. Skemmti- og skoðunarferðirnar er enginn vandi að skipuleggja, þótt hér sé ekkert rútufyrirtæki. Gistirýmið gæti líka hugsanlega sloppið ef allt er laust í gistingu á Kirkjubóli, Hólmavík, Drangsnesi og Laugarhóli, en aðstaða til svona ráðstefnuhalds er svo sem engin. Spurning um að nota félagsheimilið og/eða Braggann á Hólmavík, en það er að vísu enginn búnaður á þessum stöðum fyrir ráðstefnuhald.
6) Menningarlífið að vetrarlagi
Í sjötta lagi langar mig svo að ræða aðeins menningarlífið að vetrarlagi, vegna þess að Kristín S. Einarsdóttir nefndi það sérstaklega í bréfi á atvinnumálaspjalli Strandabyggðar hér á strandir.saudfjarsetur.is og bréfið hennar er kveikjan að þessum línum mínum. Menningarlífið hér er mjög öflugt yfir veturinn, en á samt dálítið undir högg að sækja út af fólkfækkun sem leiðir af sér að bæði eru færri til að standa fyrir atburðum og líka er færra fólk til að sækja þá. Þarna finnst mér að liggi verulegir möguleikar á tengingu þessara viðburða við ferðaþjónustuna, t.d. með því að gististaðir bjóði upp á pakka með gistingu, uppákomunni, heimsókn á sýningarnar, ferð í sund, náttúruskoðun í myrkrinu og fleira slíkt. Hugsanlegt er að Café Riis gæti líka tekið þátt í svona viðburðum með því að tengja opnunartíma sinn við þá yfir veturinn.
Til dæmis er kjörið þegar Leikfélag Hólmavíkur setur upp leikrit að reyna að fá gesti til að koma hingað norður í leikhús, stoppa eina helgi og njóta þess sem ferðaþjónustan býður upp á um leið. Sama gildir t.d. um stórtónleika Kvennakórsins, þorrablótin og fleiri viðburði, meira að segja getur verið að einhvern markhóp megi finna sem hefur áhuga á spilakvöldum eða íbúafundum. Karókíkvöldið á Café Riis má nefna sérstaklega í þessu samhengi, því í haust var prófað að bjóða upp á tilboð víðar hjá ferðaþjónum í tengslum við þann dag.
Gera þyrfti meira af þessu, auka samráð milli menningarlífsins og ferðaþjónanna og kynna slíka pakka og atburði þá vel með þeim tækjum sem standa til boða. Þetta útheimtir að vísu að menn ákveði dagsetningar með góðum fyrirvara og hringi nokkur símtöl sín á milli, en ég er viss um að það er ekki svo svakalega óyfirstíganlegt.
Jón Jónsson, Kirkjubóli