22/12/2024

Ástargaldrar komnir út

Út er komin bókin Ástargaldrar sem er samstarfsverkefni Strandagaldurs, úgáfufyrirtækisins edda uk í Englandi og Eddu-útgáfu en Rakel Pálsdóttir og Jón Jónsson tóku hana saman. Bókin er einnig komin út á ensku undir heitinu Love Charms í þýðingu Önnu Benassi. Í bókinni er birt úrval ástargaldra víða að úr Evrópu og nokkrar skemmtilegar sögur af ástargöldrum. Sumt af því byggir á sögulegum heimildum, en annað eru hreinræktaðar þjóðsögur.


Allt frá örófi alda hefur það verið helsta umhugsunarefni ungra stúlkna og pilta hvernig þau geti haft áhrif á hitt kynið og vakið hjá því löngun í náin kynni. Og þegar öll hefðbundin ráð til að heilla hitt kynið bregðast freistast sumir til að beita galdri, reyna að virkja dulda krafta sér til hjálpar og fá sjálf náttúruöflin í lið með sér.

Bókin sem er 113 blaðsíður og er fagurlega myndskreytt er hugsuð til skemmtunar og lesendum ráðlagt að umgangast galdra þessa með mikilli varúð. Útgefandi ábyrgist auk heldur ekki að galdrarnir virki en heldur ekki að þeir virki ekki. Bókin verður til sölu á Galdrasýningu á Ströndum innan skamms.