22/12/2024

Arnkötludalur ekki ekinn í bráð

150-holmavikSamkvæmt nýrri frétt í vestfirska vefritinu www.bb.is er ekki gert ráð fyrir fjármagni í vegagerð um Arnkötludal fyrr en minniháttar upphæð á árinu 2009, í drögum að vegaáætlun 2005-9. Í því felst þó sú stefnubreyting að með þessum drögum er það verk komið inn á vegaáætlun. Samkvæmt fréttinni er þetta lagt til í tillögum sem samgönguráðherra hefur nýverið lagt fram og eru nú til umfjöllunar í þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Ennfremur er gert ráð fyrir að framkvæmdir við þverun Mjóafjarðar tefjist og verði ekki lokið í lok áætlunar 2009.

Orðrétt segir í fréttinni á bb.is: „Sem kunnugt er hefur á undanförnum árum verið unnið að undirbúningi framkvæmda við þverun Mjóafjarðar í Ísafjarðardjúpi og lagningu vegar um Arnkötludal. Undirbúningur framkvæmda í Mjóafirði er langt kominn og eru fyrstu áfangar framkvæmdarinnar að verða tilbúnir til útboðs og fyrirtækið Leið ehf. hefur á undanförnum árum undirbúið vegalagningu um Arnkötludal og Gautsdal. Hefur nokkur eftirvænting ríkt við Djúp, Strandir og í Reykhólasveit.“