23/12/2024

Arnkötludal var frestað um ár

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
Því miður er það staðfest sem fram í greinum mínum fyrir áramót að Arnkötludal hefur verið frestað. Eins og menn muna ákvað samgönguráðherra á síðasta sumri að fresta nokkrum framkvæmdum og meðal þeirra var Arnkötludalur. Sturla Böðvarsson andmælti þessu og hélt því fram að lok framkvæmda myndu ekki tefjast þrátt fyrir að þær hæfust seinna en vegaáætlun gerði ráð fyrir.

Nú liggur sannleikurinn fyrir svart á hvítu í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sem liggur fyrir Alþingi og auglýstu útboði Vegargerðarinnar. Verkinu mun samkvæmt útboðslýsingu ljúka 1. september 2009. Það er seinkun um eitt ár. Sturla Böðvarsson hefði betur sagt sannleikann strax í stað þess að véfengja orð mín. Ég bendi lesendum á greinar um þetta sem birtust á Strandavefnum í nóvember og desember á síðasta ári. Þó hefur það áunnist að útboð sem áformað var í febrúar/mars var hraðað og tilboð á að opna 20. mars næstkomandi. Það ætti að duga til þess að búið verði að undirrita samning við verktaka fyrir kosningar og eftir það verður framkvæmdum varla frestað.

En að öðru leyti eru fjárveitingar til Strandasýslu nokkur vonbrigði. Jákvætt er að í langtímaáætlun er lagt til fé í veginn til Drangsness og svo suður um sýslu, 280 mkr. og 360 mkr. Á árinu 2010 eru 95 mkr. til þess ljúka við slitlag um Tungusveitina. Það á eftir að fara yfir þessar tillögur og aðgæta hvort fjárveitingarnar dugi til þess að endurbæta vegina og mér sýnist að ekki sé fé til þess að lagfæra veginn um Bjarnarfjarðarháls og víst er að setja verður umtalsvert fjármagn í veginn norður í Árneshrepp. Rétt er að taka fram að óskipt fjárhæð er í ferðamannaleiðir og tengivegi og þaðan hafa komið peningar á undanförnum árum. 

Það er einboðið að færa 95 mkr. í Tungusveitinni fram til 2007 með þeim rökum að þannig nýtist fjárfestingin best meðan nýi vegurinn um Arnkötludal verður ekki kominn. Þá er ég þeirrar skoðunar að ljúka þurfi vegagerð milli byggðarlaganna í sýslunni á næstu 4 árum þannig að þau standi jafnfætis öðrum þéttbýlisstöðum á landinu. Því fer fjarri að ég geri lítið úr því að verja 735 milljónum króna til vegagerðar í Strandasýslu á næstu 12 árum, fyrir utan Arnkötludalinn, en þörfin er brýn, ástand vegamála í sýslunni er að mörgu leyti lakara en gerist annars staðar og þess vegna þarf að vinna hratt og ljúka þessum verkefnum á næstu 4 árum. Þótt það þýði framkvæmdir fyrir um einn milljarð króna eru þær hvorki ofviða ríkissjóði né of í lagt.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður í Frjálslynda flokknum
www.kristinn.is.