Næstu helgi ætlar Arnkatla 2008 sem er samtök ferðaþjónustuaðila í Reykhólasveit og á Ströndum að funda alla helgina á Hólmavík og vinna að stefnumótun atvinnugreinarinnar. Ætlunin er að fljótlega eftir stefnumótunarfundinn verði tilbúin heilsteypt aðgerðaráætlun til að starfa eftir næstu misserin. Ætlun Arnkötlu 2008 er að efla þjónustustig greinarinnar og sinna ýmsum framfaramálum. Sævar Kristinsson ráðgjafi og framkvæmdastjóri Netpsors mun stjórna vinnunni sem hefst klukkan 13:00 á veitingastaðnum Café Riis næstkomandi föstudag. Vinnufundurinn mun svo halda áfram morguninn eftir og standa yfir allan daginn.
Á laugardagskvöldið verður síðan árshátíð greinarinnar. Sigurður Atlason verkefnisstjóri Arnkötlu 2008 segist búast við því að fjölmennt og góðmennt verði á fundinum enda sé það eingöngu á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra og einstaklinga innan þeirra að Arnkatla 2008 geti náð markmiðum sínum og eflt þannig greinina verulega á öllu starfssvæðinu.