22/12/2024

Arfleifð Guðmundar góða í Kálfanesi

{mosvideo xsrc="kalfaneslind" align="right"}Guðmundur biskup Arason hinn góði varð biskup á Hólum árið 1203, fyrir hartnær 800 árum, og gegndi því embætti í 34 ár. Hann fékk fljótt orð á sig fyrir góðmennsku og þótti hafa til að bera mikla mildi og mýkt. Í meðfylgjandi myndbandi er fjallað stuttlega um arfleifð Guðmundar biskups góða handan við Hólmavíkurflugvöll fyrir hartnær 800 árum.

Þegar Guðmundur góði tók við embætti biskups á Hólum skipaði hann svo fyrir að enginn í biskupsdæminu skyldi svelta og allir sem kæmu að Hólum ættu að fá tvær máltíðir á dag, sem þótti nokkuð nýmæli í þá daga. Höfðingjavaldið var ekki hrifið af því og fannst óþarfi að vera að gefa fátækum mat alla daga.
 
Guðmundur góði átti af þeim sökum í nokkrum erjum við höfðingjavaldið og hraktist því oft frá Hólum og flakkaði um landið og jafnan fylgdi honum herskari fátæklinga, því þar sem Guðmundur góði var, þar var von á magafylli.
 
Guðmundur góði virðist hafa verið vinamargur í Strandasýslu, en hann er líklega sá biskup sem komið hefur á Strandir oftar en nokkur annar. Einn traustur vinur hans hér á Ströndum bjó stóru búi hér á Kálfanesi við Steingrímsfjörð og Guðmundur heimsótti oft á ferðum sínum, ásamt skara fátæklinga.
 
Það fer ekki mikið fyrir þessari litlu lind sem er hér í landi Kálfanes, nánast í miðbæ Hólmavíkur, og er allsendis ómerkt. Vatnið í henni er þó talið svo heilagt og kröftugt að það megi bera yfir þveran Steingrímsfjörð í lopahúfu, án þess að dropi fari til spillis. Og lækningamátturinn? Maður lifandi!
 
Maður veltir því ósjálfrátt fyrir sér hvort Hólmvíkingar ættu ekki tappa þessari gæðavöru á flöskur og reyna að koma í verð. Þó það sé ekki beinlínis í anda Guðmundar góða.
 
En hluta ágóðans mætti reyndar verja til góðgerðarmála.