22/12/2024

Annir hjá lögreglu í síðustu viku

LöggustöðÍ fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum um helstu verkefni síðustu viku kemur fram að í vikunni 18. til 24. febrúar voru sjö ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Flestir voru stöðvaðir á Holtavörðuheiði eða á Djúpvegi um Strandir. Sá sem hraðst ók var stöðvaður í Staðardal, norðan Hólmavíkur, og var hann mældur á 116 km/klst en hámarkshraði er 90 km/klst. Á miðvikudeginum var ökumaður stöðvaður á Ísafirði grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu á Vestfjörðum í vikunni. Á þriðjudeginum varð minniháttar umferðaróhapp á Kirkjubólshlíð þar sem tvær bifreiðar rákust saman við framúrakstur. Ökumaður bifreiðarinnar sem var að taka fram úr, er grunaður um ölvun við akstur.Þann sama dag valt bifreið út af veginum um Hvílftarströnd í Önundarfirði. Ökumaður var einn í bifreiðinni og slapp án meiðsla. Þá valt bifreið út af veginum við Meirihattardal í Álftafirði á fimmtudaginn. Ökumaður var einn í bifreiðinni en hann fékk aðhlynningu á sjúkrahúsinu á Ísafirði vegna minniháttar meiðsla sem hann hlaut. Bifreiðin var mikið skemmd. Þá valt bifreið út af veginum um Lágadal og Steingrímsfjarðarheiði á sunnudagskvöld. Engin slys urðu á ökumanni eða farþega en nokkrar skemmdir urðu á bifreiðinni.

Eins og fram hefur komið í fréttum haldlagði lögreglan um 100 gr. af ætluðu hassi við húsleit á Ísafirði síðastliðinn mánudag. Einn maður var í haldi vegna þess en efnið var pakkað í sölueiningar og er málið rannsakað með tilliti til þess.

Aðfaranótt sunnudagsins var lögreglan kölluð að húsi í Bolungarvík þar sem fram fór eftirlitslaust unglingasamkvæmi. Lögreglan stöðvaði þetta samkvæmishald en einhver ölvun var meðal unglinganna og var nokkrum aðilum komið í hendur forráðamanna sinna.