22/12/2024

Annasöm vika hjá lögreglunni

Síðastliðin vika var nokkuð annasöm hjá lögreglunni á Vestfjörðum, samkvæmt fréttatilkynningu um verkefni vikunnar, og voru umferðarmál þar mest áberandi. Bílvelta varð á Þorskafjarðarheiði á mánudeginum þar sem jeppi valt og skemmdist mikið. Þrír voru í bílnum og sluppu allir ómeiddir. Eins og fram hefur komið í fjölmiðum varð umferðarslys á Holtavörðuheiði á föstudeginum þar sem kona lét lífið og fjórir aðrir slösuðust. Lögreglan lýsir eftir vitnum af þessu umferðarslysi og er hægt að koma upplýsingum á framfæri í síma 450-3730. Hluti þjóðvegar um Holtavörðuheiði liggur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum og er sinnt frá lögreglustöðinni á Hólmavík. Einnig koma að rannsókninni starfsmenn rannsóknardeildar lögreglunnar á Vestfjörðum.

Þennan sama dag urðu fjögur önnur umferðaróhöpp í umdæminu. Bílvelta varð á Holtavörðuheiði og var ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, fluttur á sjúkrahús með minniháttar áverka. Jeppi valt út af veginum um Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði, ofan Ísafjarðarflugvallar, og hafnaði ofan í skurði mikið skemmdur. Ökumaður og farþegi sluppu með minniháttar meiðsl. Þá var bifreið ekið á vegrið við Ós í Bolungarvík og var hún flutt af vettvangi með kranabifreið mikið skemmd en ökumaður og tveir farþegar sluppu án meiðsla. Þessu til viðbótar var bifreið ekið á grindverk við Mjósund á Ísafirði en skemmdir urðu minniháttar.

Í vikunni voru 16 ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Sá sem hraðast ók var mældur á 116 km hraða í Bitrufirði í Ströndum þar sem hámarkshraði er 90 km. Flestir voru stöðvaðir í nágrenni við Ísafjörð eða á vegum milli þéttbýliskjarna á norðanverðum Vestfjörðum. 

Aðfaranótt föstudagsins brutust þrír aðilar inn í íbúð í Bolungarvík og réðust gegn manni sem þar var inni. Fólk þetta veitti manninum talsverða áverka í andliti en voru farin af vettvangi er lögreglu bar að. Vitað er hverjir þarna voru að verki og stendur rannsókn málsins yfir.