22/12/2024

Anna Kristín Gunnarsdóttir er hitt kynið!

Aðsend grein: Edda Agnarsdóttir
Í þessu kjördæmi er framboð karla mest áberandi í efstu sætum allra stjórnmálaflokkana til alþingiskosninga vorið 2007. Kjördæmið hefur því fengið það umtal að vera karlægasta kjördæmið á Íslandi. Það vantar hitt kynið inn á alþingi fyrir  kjördæmið. Raddir kvenna verða að vera með vegna þess að konur eru öðruvísi en karlmenn. Anna Kristín Gunnarsdóttir er alþingismaður, hún hefur dýrmæta reynslu sem við höfum ekki efni á að missa. Þar að auki er reynsla hennar mikilvæg fyrir frambjóðendur í 1. og 2. sæti Samfylkingarinnar sem eru karlmenn. Ég ætla ekki að segja að þeir gætu ekkert án hennar en óneitanlega verður allt markvissara fyrir kjördæmið með hana og hennar reynslu fyrir kjördæmið. Anna Kristín er í 3. sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi  til alþingiskosningar 2007.

Skoðanakannanir hafa sýnt það undanfarið að raunhæfur möguleiki er að koma Önnu aftur á þing. Til þess að svo megi verða er afar mikilvægt að konur hugsi um konur og kjósi konur.  Ég er búin að fá nóg af þeim klysjum „að það eigi ekki að kjósa konu af því hún er kona heldur eftir hæfni hvers og eins hvort sem það er karl eða kona“. þessi „viska“ er orðin yfirþyrmandi og traðkar á konum, það er eins og það þurfi að afsaka það sérstaklega að kjósa konu og sýna fram á að hún hafa fullt af hæfileikum umram karla til að mega styðja hana. Það er ekki nóg að reka upp öskur og segja að það sé erfitt að fá konur í pólitík og félgsstörf almennt en hundsa þær svo þegar þær eru til staðar.

Anna hefur unnið ötullega fyrir kjördæmi sitt  á þingi . Störf án staðsetningar og samgöngur hefur  verið eitt af hennar baráttumálum fyrir kjördæmið.

 Hún hefur marg oft vakið athygli á því að hjá ríkinu eru um fjórða þúsund opinber störf sem ætluð eru landsbyggðinni sem hægt er að vinna allsstaðar en af þeim eru 300 – 400 störf auglýst árlega laus til umsóknar. Til fróðleiks og viðmiðunar að þá eru 15.000 störf í Reykjavík á vegum hins opinbera. Með bættum fjarskiptum þ.e. háhraðatengingu eru möguleikar manneskjunnar efldar í sinni heimabyggð í staðin fyrir þann flótta sem átt hefur stóran þátt í fólksfækkuninni.

Samfylkingin setti fram þingsályktunartillögu um að skilgreind verði öll opinber störf á landsbyggðinni í byrjun síðasta þings og fékk það samþykkt undir þinglok. Með þessari tillögu er hægt að jafna aðstöðu þeirra sem vilja búa í sinni heimabyggð en hafa ekki getað vegna atvinnuástands. Meirihluti þeirra ungmenna sem ganga til mennta annars staðar vilja snúa heim að námi loknu, en því miður hefur samfélagið í heild sinni sofið á verðinum og ríkisstjórnin ekki haft hugmyndaflug fyrir þetta vel menntaða fólk.

Anna hefur talað um forneskju í vegamálum Vestfirðinga þar sem íbúar hafa bæði búið við skeytingarleysi og metnaðarleysi samgönguyfirvalda. Á Suðurfjörðum Vestfjarða eru stórhættulegir malarfjallvegir. Það vantar ekki að íbúar hafa leitað ásjár hjá stjórnvöldum um endurbætur og viðhald en undirtektir eru engar. Á norðurvæði Vestfjarða eru ýmsar hindranir eins og, flóðasvæði, fjallshlíð sem er að hrynja smátt og smátt og gæti þess vegna komið í heilu lagi, snjóflóðahætta og 13 einbreiðar brýr.

Ýmsum frankvæmdum sem legið hafa fyrir hefur verið slegið á frest vegna ofþennslu annarsstaðar!  Það getur stundum verið erfitt að skilja sumar skilgreiningar.

Anna Kristín er ekki bara kvenmaður, hún er vígamaður sem vinnur vel fyrir sitt kjördæmi.

Edda Agnarsdóttir