Andrés önd heitir einn íbúi Bjarnarfjarðar. Hann nam þar land í sumar en Andrés þessi önd er ekki önd, heldur gæsarungi sem gengur líka stundum undir nafninu Bíbb-bíbb. Hann á einskonar lögheimili á Bakka hjá Magnúsi Rafnssyni og Arnlínu Óladóttur, en þangað kom hann í sumar í fylgd barnabarna þeirra, sem höfðu fundið vesalinginn aleinan á vergangi suður á landi snemma í sumar. Fyrst um sinn var hreiðrað um hann í stofunni á Bakka í myndarlegum pappakassa, en þá var hann heiðgulur og gekk um hnarreistur meðal heimilisfólksins, og bíbbaði látlaust. Eftir nokkra daga flutti hann út á hlað og beit þar gras sumarlangt á milli þess sem hann bíbbaði og fagnaði öllum gestakomum á sinn máta.
Þegar líða fór að hausti þá var Andrés önd fluttur í kofa við húsið á gamla Bakka þar sem hann hefur unað sér vel síðan og er eins og kóngur í eigin ríki. Andrés önd er núna orðin grá og falleg gæs, en hann hefur ekki ennþá náð að venja sig af bíbbinu, sem einkennir hann frá öðrum gæsum. Enda hefur hann ekkert umgengist málfarskennara af hans kyni. Stöku sinni koma þó óvart frá honum alvöru gæsahljóð sem koma honum gjörsamlega í opna skjöldu, og þá fer hann allur hjá sér og hann lítur skömmustulega í kringum sig eins og hann voni að enginn hafi heyrt að hljóðið hafi komið frá honum. Svo ræskir hann sig og heldur áfram sínu bíbbi eins og ekkert hafi í skorist. Andrés önd eða Bíbb-bíbb er byrjaður að æfa flugtökin og stefnir á flug innan tíðar og verður þá loks eins og aðrir jafnaldrar hans, þó hann hafi ekki hugmynd um hvað það er eða hvort það skipti yfirleitt nokkru máli.