05/11/2024

Ályktun Fjórðungsþings um samgöngumál

Á Fjórðungsþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga í september var fjallað um ýmsa málaflokka í áætlun þingsins sem bar yfirskriftina Vestfirðir í sókn. Samgöngumál hafa löngum verið ofarlega á baugi og svo var einnig nú og ýmis mikilvæg mál áréttuð í ályktuninni. Hvað Strandir varðar má þó segja að það sem ekki er áréttað veki meiri athygli. Svo virðist sem gleymst hafi að á Vestfjörðum sé sveitarfélagið Árneshreppur sem ekki liggur heilsárs vegur til nú á 21. öldinni. Jafnframt virðist að gamalt baráttumál Fjórðungssambandsins, að bundið slitlag sé lagt milli nálægra þéttbýlisstaða, sé nú með öllu gleymt, enda er þeim áfanga náð fyrir löngu alls staðar á Vestfjarðakjálkanum nema á Ströndum milli Hólmavíkur og Drangsness.

Ályktun Fjórðungsþings um samgöngur og fjarskipti er svohljóðandi:

Fjórðungsþing vísar til samþykktar Fjórðungsþings 2008 um stefnumótun í samgöngumálum á Vestfjörðum sem enn er í fullu gildi. Stjórnvöldum ber að leggja þessa stefnumótun til grundvallar við gerð samgönguáætlunar til fjögurra ára, samgönguáætlunar til 12 ára og fjarskiptaáætlunar. Fjórðungsþing áréttar eftirfarandi:
 
·      Endurbygging Vestfjarðavegar um Barðastrandarsýslu frá Flókalundi í Bjarkalund verði hraðað sem kostur er. Tryggt verði að fjármagn sem ætlað hefur verið í þennan kafla skili sér til framkvæmda, þannig að ekki verði frekari tafir á því að þessi landshluti komist í ásættanlegt vegasamband við aðra hluta landsins.
 
·      Áréttað er mikilvægi þess að tryggt sé fjármagn til reksturs Breiðafjarðarferjunar Baldurs á meðan ekki er viðunandi vegasamband í Barðastrandarsýslu.
           
·      Hafist verði handa við gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar um leið og framkvæmdum lýkur við Óshlíðargöng.
 
·      Mismunur á flutningskostnaði í landinu er með öllu óviðunandi og skerðir samkeppnishæfni fyrirtækja sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Því er nauðsynlegt að tillögur um jöfnun flutningskostnaðar nái nú þegar fram að ganga.

·      Tryggja þarf öryggi gagnaflutninga á Vestfjörðum með hringtengingu ljósleiðara og endabúnaði sem svarar kröfum nútímasamfélags.
 
·      Mikilvægt er að allir landsmenn sitji við sama borð þegar póstdreifing er annars vegar.
 
·      Mikilvægt er að rekstur flugvalla í fjórðungnum sé áfram tryggður, ekki síst í tengslum við sjúkraflug. Þá verði komið á reglulegum flug-samgöngum milli norður- og suðursvæða Vestfjarða yfir vetrartímann.
 
·      Áréttað skal að enn hefur ekki verið hafist handa við uppbyggingu samgöngumiðstöðvar í Reykjavík og brýnt að því verði hraðað.
 
·      Skorað er á samgönguyfirvöld að opna á ný möguleika á flugi frá Ísafjarðarflugvelli til Austur-Grænlands, með loftferðasamningi milli Íslands og Grænlands. Möguleikar Vestfirðinga á auknum samskiptum við næstu nágranna okkar í vestri eru bundnar því að flugsamgöngur verði tryggðar.