22/11/2024

Alþjóðlegt atskákmót í Djúpavík

Skákfélagið Hrókurinn ætlar að halda opið alþjóðlegt atskákmót í Djúpavík í Árneshreppi á Ströndum, helgina 20.-22. júní í sumar. Mótið er haldið til minningar um Pál Gunnarsson, einn af stofnendum Hróksins. Mjög vegleg verðlaun eru í boði og margvíslegheit hátíðahöld í tilefni af mótinu. Minningarmót Páls Gunnarssonar er haldið í samvinnu við fjölskyldu Páls og eru heildarverðlaun á mótinu 500 þúsund krónur. Veitt verða verðlaun í mörgum flokkum, enda er mótið opið áhugamönnum á öllum aldri.

Meðal keppenda verða bæði erlendir og innlendir meistarar, en hægt er að skrá sig til þátttöku hjá Róbert Harðarsyni í chesslion@hotmail.com.

Teflt verður í ævintýralegu umhverfi í gömlu síldarverksmiðjunn í Djúpavík. Keppendum verður að auki boðið upp á skoðunarferðir um Árneshrepp, haldnir verða tónleikar, ljósmyndasýning opnuð, og slegið upp ósvikinni veislu að hætti Strandamanna.

Gistingu er hægt að fá í Hótel Djúpavík og víðar í Árneshreppi, auk þess sem tjaldstæði er í Trékyllisvík og Norðurfirði. Gestir í Árneshreppi, sem er afskekktasta sveit á Íslandi, eiga í vændum að kynnast stórbrotinni náttúru og sögu við ysta haf. Dagskrárstjóri hátíðarinnar er Sigrún Baldvinsdóttir (sigrun.baldvinsdottir@reykjavik.is, sími 698-7307) og mun hún m.a. hjálpa fólki við að finna gistingu og veita upplýsingar um hátíðina að öðru leyti.

Páll Gunnarsson (1961-2006) tók þátt í stofnun Hróksins 1998 og tefldi flestar skákir allra liðsmanna félagsins á Íslandsmóti skákfélaga. Páll, sem ættaður var af Ströndum, var einn traustasti liðsmaður Hrókins og tók virkan þátt í skáklandnáminu á Grænlandi. Með mótinu vilja vinir hans, félagar og fjölskylda heiðra minningu þessa góða drengs.

Páll Gunnarsson á Grænlandi