30/10/2024

„Allt að gerast“ hjá hreppnum

Það fer ekki framhjá neinum sem ekur eða gengur um Hólmavík þessa dagana að það er "allt að gerast" hjá starfsmönnum hreppsins. Starfsfólk vinnuskólans hefur meðal annars fengist við þökulagningu og málningu á gagnstéttarköntum, hreppsstarfsmenn eru meðal annars að gera húsbílaaðstöðu á tjaldstæðinu klára og í skólanum er verið að festa upp lista til að hengja upp myndir á Hamingjudögum. Það er greinilegt að allir leggja sitt af mörkum til að fegra ásýnd bæjarins og eru Hamingjudagar ágætt tilefni til að gera átak í þeim efnum. Fréttaritari smellti nokkrum myndum af vinnuglöðum hreppsstarfsmönnum í dag.

Þessir dugnaðardrengir unnu að þökulagningu í bankabrekkunni í dag.

Guðjón Hraunberg var niðursokkinn í að mála gangastéttakanta þegar fréttaritara bar að garði.

Einar hreppsverkstjóri hefur í nógu að snúast og hér er það Masdan bláa sem á hug hans allan.

Skólalóðin er eitt þeirra svæða sem fá andlitslyftingu þessa dagana.

Daníel hefur unnið mikið að fegrun umhverfisins og hér sést hann mála bæinn rauðan.

Margar túnþökur hafa flust frá Víðidalsá undanfarna daga.

Unnið er að verulegum endurbótum á húsi Rúnu og Kela á Borgabrautinni.