22/12/2024

Ákveðið að rífa í stað þess að selja

Á síðasta hreppsnefndarfundi Hólmavíkur- og Broddaneshreppa sem jafnframt var fyrsti fundur Strandabyggðar var ákveðið að selja ekki húsið Kópnesbraut 4b á Hólmavík eins og áður hafði verið auglýst. Þess í stað var samþykkt samhljóða að rífa húsið en samkvæmt heimildum strandir.saudfjarsetur.is mun ástæða þeirrar ákvörðunar vera vegna aðalskipulags Hólmavíkur, en gert er ráð fyrir því að gata fari í gegn þar sem húsið stendur. Samkvæmt sömu heimildum bárust nokkur tilboð í húsið og það hæsta upp á 700.000 krónur. Húsið var byggt árið 1913 og hýsti barnaskóla staðarins um áratugaskeið.

Í húsinu fór fram margskonar félagsstarfsemi og er meðal annars vagga leiklistar á Hólmavík og þar hafði einnig Lestrarfélag Hrófbergshrepps aðstöðu. Arkitekt hússins var Rögnvaldur Ólafsson, sá hinn sami og teiknaði meðal annars Húsavíkurkirkju og Þingeyrarkirkju. Síðustu áratugina hefur húsið verið notað sem slökkvistöð þar til fyrir nokkrum árum að nýtt húsnæði undir slökkvistöð var tekið í notkun úti á Skeiði.