23/12/2024

Áhyggjur af stöðu rækjuvinnslunnar

RækjanÁ sameiginlegum fundi Atvinnumálanefnd Strandabyggðar og sveitarstjórnar Strandabyggðar á dögunum sem haldin var í húsnæði Hólmadrangs, var stöðu rækjuvinnslunnar á Íslandi í dag rædd og kynnt. Einnig var rætt um stöðu Hólmadrangs, en verksmiðjan var lokuð á þessum tíma vegna hráefnisskorts. Einnig var samstarf Hólmadrangs og Strandabyggðar rætt og upplýsti Gunnlaugur Sighvatsson formaður Atvinnumálanefndar og framkvæmdastjóri Hólmadrangs að ekki væri búið að afskrifa að hér gæti hafist framleiðsla á kítini sem myndi vera unnið úr rækjuskel og nýttist síðan til lyfjaframleiðslu.

Eftir kynninguna yfirgáfu sveitarstjórnarmenn fundinn, en Atvinnumálanefnd Strandabyggðar samþykkti ályktun þar sem áhyggjum er lýst vegna erfiðrar stöðu rækjuvinnslunnar í landinu:

"Atvinnumálanefnd lýsir áhyggjum af fréttum um erfiða stöðu rækjuvinnsla í landinu, sem vakið hafa ugg um atvinnuöryggi fólks í þessari starfsgrein. Þá hefur hráefnisskortur hjá Hólmadrang undanfarnar vikur aukið áhyggjur nefndarmanna, sem vona að úr fari að rætast."