30/10/2024

Afstaða Hólmvíkinga ástæðan fyrir frestun í Grundarfirði?

Boltakast á barnamótiAð því er kemur fram á vefnum Skessuhorni er ástæðan fyrir því að Unglingalandsmóti á Grundarfirði verður hugsanlega frestað til 2010, sú ákvörðun Hólmvíkinga að fresta mótshaldinu frá árinu 2010 til 2011. Í framhaldi af þessu hafi verið ákveðið að óska eftir því við stjórn UMFÍ að unglingalandsmót sem halda á í Grundarfirði í sumar, verði frestað um eitt ár, ef bæjarfélag og héraðssamband sem eru með tilbúna aðstöðu væru tilbúin að hlaupa í skarðið og halda mótið í sumar. Vegna gríðarlegra kostnaðarhækkana síðasta árið og efnahagsástandsins í landinu, væri það betra fyrir bæjarfélagið allra hluta vegna að fá eitt ár í viðbót til að kljúfa kostnaðaraukann og fjármagna framkvæmdir.


Þetta er haft eftir Guðmundi Inga Gunnlaugssyni sveitarstjóra á Grundarfirði. Ef stjórn UMFÍ samþykkir ekki frestun og aðrir staðir eru ekki tilbúnir að halda mótið í sumar, muni Grundfirðingar gera það með glæsibrag eins og ekkert hafi í skorist.

Guðmundur sagði að sem dæmi um gríðarlegar kostnaðarhækkanir frá því að sótt var um landsmótið á árinu 2007 til þessa dags, að gerviefni á hlaupabraut íþróttavallar hækkaði úr 30 milljónum í 80 milljónir. Þessar hækkanir hefðu sérstaklega komið til síðasta árið. Guðmundur segir að styrkir úr opinberum sjóðum, svo sem af fjárlögum, dygðu nú miklu skemur en áður, þannig að kostnaður sveitarfélaga vegna aðstöðusköpunar við landsmót UMFÍ dygðu miklu skemur.